- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrst og fremst liðssigur

Óvissa ríkir ekki aðeins um hvenær keppni á Íslandsmótinu í handknattleik hefst á ný heldur einnig hvernig félögin koma undan ástandinu, fjárhagslega og félagslega. Mynd/Skapti Hallgrímsson, akureyri.net
- Auglýsing -

„Þetta voru tvö góð baráttustig, sannkallaður iðnaðarsigur á baráttuglöðu liði ÍR,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, annar þjálfari Þórs frá Akueyri, þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans eftir sigur liðs hans á ÍR í 3. umferð Olísdeildar karla í Austurbergi í kvöld, 26:21.


„Vörnin small vel hjá okkur og markvarslan einnig. Síðan skrúfuðum við aðeins upp hraðann að þessu sinni frá síðustu leikjum. Einkum í síðari hálfleik og þá fengum við nokkur hraðaupphlaup og auðveldu mörkin sem léttu okkur róðurinn,“ sagði Halldór Örn ennfremur sem var skiljanlega ánægður með sigurinn í keppni liðanna sem voru, fyrir viðureignina í kvöld, án stiga í botnsætum deildarinnar.


Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik var Þór með tveggja marka forskot í hálfleik, 13:11. Leiðir skildu í síðari hálfleik og Þór náði um skeið fjögurra til fimm marka forskoti sem ÍR tókst ekki að höggva nærri. Halldór Örn sagðist fyrst og fremst vera ánægður með liðsheildina hjá Þórsliðinu í kvöld.

„Þetta var liðssigur, fyrst og fremst. Við vildum þetta meira og uppskárum samkvæmt því. Við stígum hinsvegar ekkert upp til skýjanna eftir þennan sigur, en þetta var góður áfangi og það er vissulega léttara að fara kílómetrana fjögurhundruð sem framundan eru heim til Akureyrar með stigin tvö í farteskinu. Sigur auðveldar alltaf heimferðina,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, annar þjálfari karlaliðs Þórs Akureyrar í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -