- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Fyrsti sigur Aftureldingar í Kaplakrika í níu ár – Þorsteinn skoraði 13 mörk

Þorsteinn Leó Gunnarsson í þann mund að skora eitt 13 marka sinna í Kaplakrika í kvöld. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Afturelding tók frumkvæðið í úrslitaeinvíginu við FH um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik með því að vinna í Kaplakrika í kvöld, 32:29, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 17:16. ­Þetta var fyrsti sigur Aftureldingar á FH í Kaplakrika síðan 16. nóvember 2015, eða í tæp níu ár. Þá var FH-ingur í þjálfarastólnum hjá Mosfellingum.

Frábær stemning var í Kaplakrika í kvöld, liggur við að segja að vanda. Nærri 2.000 áhorfendur skemmtu sér vel þótt úrslitin hafi fallið mönnum misjafnlega í geð, eins verkast vill.

Næsta viðureign liðanna verður að Varmá á miðvikudagskvöld en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari.
Þorsteinn Leó Gunnarsson fór á kostum í leiknum. Hann skoraði 13 mörk í 18 skotum. FH-ingar réðu ekkert við stórskyttuna sem gerði mikinn usla í vörn FH.

FH-ingar voru sterkari framan af leiksins í kvöld og voru m.a. sex marka forskot, 13:7, eftir 17 mínútur. Þá tóku Mosfellingar leikhlé. Upp úr því lifnaði heldur betur yfir varnarleik liðsins. Það skilað sér í fimm mörkum í röð og í jafnari leik.

Leikurinn var síðan í járnum lengst af síðari hálfleiks og áfram hélt varnarleikur Aftureldingar vel aftur af sóknarmönnum FH-inga. Auk þess sem Jovan Kukobat varði mikilvæg skot eftir hraðaupphlaup á síðustu mínútum þegar FH-ingar gátu jafnað metin.

Aron ekki með

Aron Pálmarsson lék ekki með FH vegna tognunar í nára sem hann varð fyrir í fjórðu viðureign FH og ÍBV. Ekki þarf að fjölyrða um hversu stórt skarð er hoggið í FH-liðið við fjarveru hans.

Markvarsla FH var fjarri því sem vænta má og e.t.v. spilar þar eitthvað inn í að varnarleikurinn var ekki eins góður hann getur orðið.

Fleiri leikmenn Aftureldingar lögðu í púkkið að þessu sinni en stundum áður í undanförum leikjum. Það er fljótt að skila sér.

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 9, Jóhannes Berg Andrason 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Jón Bjarni Ólafsson 3, Birgir Már Birgisson 2, Einar Örn Sindrason 2, Símon Michael Guðjónsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Ágúst Birgisson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 8, 21,5% – Axel Hreinn Hilmisson 0.

Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 13, Blær Hinriksson 5/1, Árni Bragi Eyjólfsson 5, Ihor Kopyshynskyi 4, Birkir Benediktsson 2, Birgir Steinn Jónsson 2, Jakob Aronsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 6, 40% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 1, 4,8%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Handbolti.is var í Kaplakrika og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -