- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gætum selt annað eins af miðum ef húsnæði væri fyrir hendi

Gríðarlegur áhugi er á miðum á landsleik Íslands og Austurríki í undankeppni HM sem fram fer á laugardaginn en uppselt varð í gær. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Eftirspurnin er svo mikil að við teljum varlega áætlað að við gætum selt annað eins af miðum og við höfum þegar selt,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands, við handbolta.is í tilefni þess að uppselt varð í gær á landsleik Íslands og Austurríki í umspili um sæti á HM karla í handknattleik sem fram fer á Ásvöllum á laugardaginn. Alls verða nærri 1.800 áhorfendur á leiknum.

Ónothæf í hálft annað ár

„Það er mjög slæmt að ekki sé til þjóðarleikvangur sem tekur nægan fjölda áhorfenda. Auk þess þá höfum við ekki aðgang að Laugardalshöllinni sem er okkar stærsta keppnishús. Höllin hefur ekki verið nothæf í á annað ár. Þess vegna verður leikurinn á Ásvöllum sem við erum þakklátir fyrir að geta leitað í við þessar aðstæður. Hinsvegar hafa Ásvellir aldrei verið fullkláraðir og komið fyrir áhorfendabekkjum til endanna, hvorum megin sem gæfi möguleika á að koma fleiri áhorfendum fyrir,“ sagði Róbert og bætir við að áhugi almennings fyrir leiknum sé ævintýralega mikill.

Því miður sitja margir eftir með sárt ennið

„Það er nærri vika í leikinn heima og þess utan hefur fyrri leikur við Austurríki ekki farið fram og umfjöllun að hefjast. Engu að síður er uppselt. Við höfum á undanförnum vikum fundið fyrir miklum áhuga almennings fyrir landsleiknum. Því miður þá er ljóst að margir sitja eftir með sárt ennið og fá ekki miða sem er mjög bagalegt vegna þess að íslenska þjóðin hefur alltaf staðið þétt við bakið á landsliðum okkar og HSÍ.

Undirstrikar þörfina

Þetta er enn eitt atriðið sem undirstrikar þörfina fyrir nýrri þjóðarhöll og að hún rísi sem fyrst. Við verðum að sjá einhvern framgang í þessu máli sem allra fyrst og vonandi koma jákvæða fréttir mjög fljótlega,“ sagði Róbert ennfremur.

Takmarkar tekjurnar

Vegna þessa ástands segir Róbert að HSÍ geti ekki nýtt sem skildi þann tekjustofn sem landsleikir eru. Ljóst er að sala af 3.500 til 4.000 aðgöngumiðum skilar góðum tekjum sem ekki er vanþörf á.

Stilltu miðaverði í hóf

„Húsnæðismálið takmarkar einnig tekjumöguleika sambandsins. Það segir sig sjálft. Við tókum þá ákvörðun áður en miðarnir fóru í sölu á dögunum að stilla verði þeirra í hóf þótt ljóst væri að eftirspurn væri langt umfram framboð. Þar með vildum við þakka almenningi fyrir stuðninginn og gera þeim sem þó náðu í miða mögulegt að kaupa þá fyrir það sem við teljum eðlilegt verð í stað þess að sprengja það upp úr öllu valdi. Einnig settum við sáralítið í að auglýsa miðasöluna því okkur var ljóst hver staðan væri,“ sagði Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolta.is.


Róbert er með íslenska landsliðinu í Bregenz í Austurríki en þangað komu leikmenn þess í dag til æfinga fyrir fyrri viðureignina við austurríska landsliðið á miðvikudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -