- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gáfumst aldrei upp þótt á brattann væri að sækja

Sigurður Bragason þjálfari ÍBV, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Harpa Valey Gylfadóttir og félagar í ÍBV taka á móti Haukum í oddaleik. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Því miður varð leikurinn í kvöld aldrei jafn eða dramatískur en ég er stoltur af stelpunum fyrir að gefast aldrei upp þótt á brattann hafi verið að sækja frá upphafi til enda,“ sagði Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, eftir að lið hans tapaði í þriðja sinn fyrir Fram, 27:24, í undanúrslitum Olísdildar kvenna í handknattleik í gærkvöld. Þar með féll ÍBV úr keppni í kvennaflokki að þessu sinni.

Ekki sjálfri sér líkar

„Það sýnir sig að liðið er mjög þungt og þreytt enda var leikurinn í kvöld sá sjötti á tveimur vikum. Fyrir vikið voru leikmenn og ólíkir sjálfum sér. Í fyrri hálfleik fengum við á okkur fimmtán mörk sem varla hefur átt sér stað á keppnistímabilinu.


Það er munur á að vera í Fram í þriðja leik í úrslitakeppni og á okkur sem erum í sjötta leik á tveimur vikum. Ég er ekki með stóran hóp þótt hann sé góður. Til viðbótar þá misstum við Elísu [Elíasdóttur] út í síðasta leik og Jovanovic að þessu sinni þegar korter var eftir. Ég held okkur hafi tekist að kreista eins mikið úr þessum leik og hægt var,“ sagði Sigurður.


„Ég hefði viljað bjóða upp á meiri spennu í kvöld. Það var markmið okkar. Eyjaeldmóður skein úr augum stelpnanna fyrir leikinn en því miður þá lentum við fjórum mörkum undir snemma leiks. Róðurinn varð þungur snemma og því miður varð aldrei spenna í leiknum.“

Fertugasti leikurinn á tímabilinu

Sigurður sagði að keppnistímabilið hafi verið langt og strangt hjá liðinu enda hafi liði m.a. leikið átta leiki í Evrópubikarkeppninni.

„Þetta var fertugasti keppnisleikur okkar í vetur. Ekkert kvennalið hefur leikið fleiri leiki. Ég tók það saman að af öllum liðum kvenna og karla í handbolta og körfubolta þá höfum við leikið langflesta leiki. Ég er með frekar lítinn hóp en það hefur verið gaman, átta Evrópuleikir og undanúrslit í bikar og deild. Þótt einvígið við Fram hafi ekki endað nógu vel þá hefur tímabilið verið lærdómsríkt,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari ÍBV í samtali við handbolta.is í Framhúsinu í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -