- Auglýsing -
Svissneska A-deildarliðið GC Amicitia Zürich staðfesti í dag komu Ólafs Andrésar Guðmundssonar til félagsins en fyrst var greint frá því í gær að Hafnfirðingur væri á leiðinni til félagsins eftir eins árs veru hjá Montpellier. Ólafur Andrés, sem er 32 ára gamall, skrifaði undir fjögurra ára samning við GC Amicitia Zürich sem gildir fram á mitt ár 2026.
GC Amicitia Zürich verður sjötta félagsliðið sem Ólafur Andrés leikur með fyrir utan FH hér á landi. Áður hefur hann verið í herbúðum AG København og Nordsjælland í Danmörku, Hannover-Burgdorf í Þýsklandi, Montpellier í Frakklandi og síðast en ekki síst IFK Kristianstad í Svíþjóð þar sem Ólafur Andrés lék árum saman við afar góðan orðstír og var m.a. fyrirliði um árabil.
Ólafur Andrés átti í meiðslum meira og minna allt keppnistímabilið og tókst aldrei að sýna sínar réttu hliðar með Montpellier. Hann stóðst læknisskoðun hjá GC Amicitia Zürich í gær og á að mæta á sína fyrstu æfingu með nýjum samherjum 18. júli.
Ólafur Andrés hefur leikið 137 landsleiki og skoraði í þeim 269 mörk og var síðast með landsliðinu á EM í Ungverjalandi í byrjun þessa árs.
- Auglýsing -