- Auglýsing -
- Auglýsing -

Geggjað að vera í þessari stöðu

Thea Imani Sturludóttir fagnar í leik við Tyrki í síðasta mánuði. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Verkefnið er gríðarlega spennandi og ég held að hópurinn sé tilbúinn að gefa allt í leikinn,“ sagði Thea Imani Sturludóttir sem leikur sinn 54. A-landsleik í dag þegar íslenska landsliðið mætir serbneska landsliðinu í úrslitaleik um EM-farseðil í kristalshöllinni, Kristalna Dvorana, í Zrenjanin í Serbíu. Flautað verður til leiks klukkan 16.

Íslenska landsliðið verður að vinna leikinn til þess að komast í lokakeppni EM sem fram fer í nóvember. Serbum nægir jafntefli.


„Það er geggjað að vera í þeirri stöðu að eiga enn möguleika á að ná sæti í lokakeppni þegar kemur að síðasta leiknum í riðlinum. Við höfum mikla trú á því sem við erum að gera og teljum okkur geta unnið serbneska liðið. Okkur tókst að vinna þær í síðasta leik á heimavelli okkar í október. Síðan höfum við bætt okkar. Þess vegna teljum við okkur geta unnið þótt sannarlega verði allt að ganga upp,“ sagði Thea Imani.


Spurð hvað þurfi til að vinna leikinn í dag sagði Thea að það þurfi að skora fleiri mörk en Serbar auk þess sem varnarleikurinn verður heilt yfir að vera öflugur.



„Í leiknum við Svía á miðvikudaginn á fengum við mörg færi en nýttum þau ekki nógu vel. Þess vegna verður einbeitingin í skotunum að vera mjög góð,“ sagði Thea Imani sem kennir sér einskis meins og hlakkar til leiksins í dag.


Handbolti.is er í Zrenjanin og fylgist með leiknum í stöðu- og textalýsingu úr kristalshöllinni frá klukkan 16.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -