- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Gerðum þetta aðeins of spennandi í lokin“

Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar í BSV Sachsen Zwickau ánægðar með sigurinn í dag. Díana er þriðja f.v. í efri röð. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir og samherjar hennar í þýska 2. deildarliðinu BSV Sachsen Zwickau byrjuðu keppni af krafti í dag með mikilvægum sigri í toppbaráttu deildarinnar. Þær lögðu lið TG Nürtingen, 23:21, á útivelli og komust þar með upp í annað sæti deildarinnar með 17 stig að loknum tíu leikjum. Þetta var fyrsti leikur beggja liða síðan um 20. nóvember er gert var hlé á keppni í deildinni meðan á EM kvenna í Danmörku stóð.


Díana Dögg skoraði tvö mörk í fimm skotum og var auk þess í stóru hlutverki í nýju varnarafbrigði liðsins sem gekk illa framan af leiknum en small saman í síðari hálfleik. BSV Sachsen Zwickau var tveimur mörkum undir í hálfleik, 10:8, en tókst að snúa við taflinu í síðari hálfleik og ná um skeið fimm marka forskoti efir miðjan hálfleikinn.

Óþarfi að missa niður í tvö

„Við gerðum þetta aðeins of spennandi í lokin. Vorum komnar fimm mörkum yfir og óþarfi að missa það niður í tvö,“ sagði Díana Dögg við handbolta.is í kvöld.


„Við byrjuðum leikinn illa. Vorum að prófa nýja vörn og því kannski ekki skrítið að upphafið hafi ekki verið eins og við vildum en við gáfumst þó ekki upp á vörninni enda náðum við að stoppa þeirra aðal skyttur þegar betur fór að ganga.“

Eins og þær hafi sprungið

„Mér leið eins og leikmenn Nürtingen hafi bara sprungið í seinni hálfleik. Þær reyndi að halda uppi sama hraða og við vildum spila í fyrri hálfleik sem gekk ágætlega hjá þeim á meðan við klikkuðum á dauðafæri eftir dauðafæri. Um leið og við fundum að þær væru orðnar þreyttar í seinni að þá gáfum við bara í. Það var erfitt að brjóta ísinn og komast yfir en loksins þegar við gerðum það þá var sigurinn ekki tekinn af okkur,“ sagði Díana Dögg sem var vitanlega sátt með sigurinn og eigin frammistöðu.

Fékk að brjóta mikið

„Ég lék næstum allan leikinn og spilaði mjög aggressivan tvist í vörninni sem hentar mér ágætlega. Fékk að standa framarlega og brjóta mikið. Get ekki kvartað yfir því,“ sagði Eyjakonan glöð í bragði og bætti við. „Ég skoraði ekki mikið í dag en átti slatta af sendingum og opnaði vel fyrir aðra leikmenn svo ég myndi segja að ég hafi spilað vel í dag.“


Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður gegn Rödertal á laugardaginn. „Við megum alls ekki misstíga okkur í þeim leik. Við ætlum okkur að vera áfram í toppbaráttunni og fara upp úr deildinni,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, handknattleikskona í Þýskalandi ákveðin en ánægð þegar handbolti.is var í sambandi við hana í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -