- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Get varla beðið eftir að komast aftur á parketið“

Bjarni Ófeigur Valdimarsson heldur til Svíþjóðar um næstu helgi. Mynd/Jóhannes Long
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson fer til Svíþjóðar um næstu helgi og hefur æfingar með Skövde en frá því var greint á laugardaginn að sænska úrvalsdeildarliðið hafi keypt Bjarna Ófeig frá FH. Á heimasíðu Skövde kemur fram að reiknað sé með að Bjarni Ófeigur leiki sinn fyrsta leik með liðinu gegn Varenberg laugardaginn 28. nóvember.

„Ég get varla beðið eftir að komast aftur á parketið,“ sagði Bjarni við handbolta.is í gær en sem kunnugt er hefur Bjarni lítið verið í snertingu við handbolta síðan í byrjun október fremur en aðrir handknattleiksmenn hér landi.

Rakleitt út eftir próf

Ástæða þess að hann fer ekki út strax er að framundan er lokapróf í BA námi hans í lögfræði í háskólanum á föstudaginn. Eftir það heldur Bjarni Ófeigur á vit nýrra ævintýra í Svíþjóð ásamt kærustu sinni, Tinnu Valgerði Gísladóttur handknattleikskonu úr Gróttu.

„Ég gerði Skövde ljóst að bæði ég og Tinna þyrftum að klára lokaprófin i lögfræðinni í háskólanum áður en við færum út,“ sagði Bjarni Ófeigur sem ætlar að nýta tímann milli æfinga og leikja á nýju ári til að skrifa lokaritgerð sína.


„Það stóð alltaf til að ljúka BA náminu hér heima en að því loknu að horfa í kringum mig með að spila utanlands. Þegar Skövde kom inn í myndina þá var mjög erfitt að skoða ekki alvarlega hvað félagið hefði upp á bjóða,“ sagði Bjarni Ófeigur. Úr varð samningur sem sagt var frá á laugardaginn að væri í höfn.

Tinna Valgerður Gíslasdóttir, kærasta Bjarna ætlar að leika í handbolta í Svíþjóð. Mynd/Eyjólfur Garðarsson

Tinna horfir í kringum sig


Tinna Valgerður hefur hug á að leika handbolta í Svíþjóð. Hún er þegar farin að skoða hvaða kostir eru í boði. M.a. er Skövde einnig með kvennalið sem kemur til álita. Fleiri kostir eru til skoðunar, að sögn Bjarna Ófeigs.

Endir á leikmannfléttu


Kaup Skövde eru væntanlega lokin á langri leikmannafléttu. Hún hófst í sumar sakleysislega þegar sænski handknattleiksmaðurinn Lukas Nilsson yfirgaf Kiel og gekk til liðs við Rhein-Neckar Löwen. Nokkrum vikum síðar sleit Nikola Bylik, leikmaður Kiel, krossband í hné. Vegna þess að Nilsson var ekki lengur fyrir hendi til að taka hlutverk Bylik keypti Kiel Svíann Oskar Sunnefeld frá SönderjyskE í Danmörku. Til að fylla skarð Sunnefeld ruku forráðamenn SönderjyskE til og kræktu í Norðmanninn Kristian Strandens frá Skövde. Það var svo til þess að stjórnendur Skövde fóru á útkikkið að leita að eftirmanni Strandens sem lauk með að þeir ráku augun í Bjarna Ófeig hjá FH og keyptu upp samning hans við Hafnarfjarðarliðið.
Strandens fer til Danmerkur um leið og Bjarni Ófeigur mætir í herbúðir Skövde. Samningur Bjarna Ófeigs við Skövde gildir fram á mitt árið 2023.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -