- Auglýsing -
- Auglýsing -

Getum gengið stoltar frá þessum leik

Alexandra Ósk Viktorsdóttir leikmaður U18 ára landsliðsins í leiknum við Þjóðverja i morgun. Ljósmynd/IHF
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega stolt af stelpunum þrátt fyrir afar svekkjandi tap. Þetta var besti leikur þessa liðs okkar en hafa ber í huga að við vorum að spila gegn einu besta liði heims í þessum aldursflokki. Liði sem vann til bronsverðlauna á EM 17 ára landsliða fyrir ári,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari U18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í morgun eftir fimm marka tap fyrir þýska landsliðinu í annarri umferð heimsmeistaramótsins í handknattleik í Chuzhou í Kína í morgun, 31:26.

Íslenska liðið var með tögl og hagldir í leiknum í nærri 50 mínútur og hafði um skeið fimm marka forskot í fyrri hálfleik, 14:9.

„Við lékum frábæran varnarleik í fyrri hálfleik auk mjög góðrar markvörslu. Okkur tókst einnig að leysa upp varnarleik Þjóðverja með framúrskarandi sóknarleik þar sem margir leikmenn okkar liðs lögðu sig mjög mikið fram,“ sagði Rakel Dögg.

Skarð fyrir skildi

Arna Karitas Eiríksdóttir rann til á gólfinu í sókn um miðjan síðari hálfleik og tognaði á læri. Hún hafði stýrt sóknarleiknum af mikilli röggsemi. Arna Karitas sneri ekki aftur inn á völlinn. Rakel Dögg sagði meiðsli hennar hafa tvímæalalaust slegið samherja hennar út af laginu.

„Brotthvarf Örnu tók aðeins taktinn úr okkur. Þá misstum við gríðarlega öflugt þýskt lið fram úr okkur og leiknum lauk því miður með tapi.

Við getum hinsvegar gengið stoltar frá þessum leik og haldið áfram að byggja ofan á fyrir næstu viðureignir á mótinu. Framfarirnir voru miklar frá leiknum við Tékka í fyrradag, nokkuð sem við munum taka með okkur inn í leikinn við Gíneu á morgun,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir þjálfari 18 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í morgun.

Mæta Gíneu í fyrramálið

Þriðji og síðasti leikur Íslands í riðlakeppni HM verður gegn Gíneu í fyrramálið. Flautað verður til leiks klukkan 8. Handbolti.is fylgist með viðureigninni í textalýsingu auk þess sem vonandi verður opið streymi frá öllum leiknum.

Gíneubúar hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum með nokkrum mun fyrir Þjóðverjum og Tékkum.

Ef íslenska liðið vinnur Gíneu á morgun tryggir það þátttökurétt um sæti 17 til 24 á HM.

Yngri landslið.

HMU18 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan

Mikið betri leikur en fimm marka tap fyrir Þjóðverjum

HM18, streymi: Ísland – Þýskaland, kl. 6

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -