- Auglýsing -
Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður og leikmaður SC Magdeburg meiddist á vinstra læri í síðari hálfleik í viðureign Magdeburg og Sporting Lissabon í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld.
Gísli Þorgeir fékk þungt högg á lærið eitt sinn þegar hann sótti af sínum alkunna krafti inn í miðja vörn Sporting. Féll hann við. Eftir það kom Gísli Þorgeir ekkert við sögu í leiknum sem Magdeburg vann naumlega og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
Eftir að leiknum lauk sást skýrt í útsendingu að Gísli Þorgeir haltraði, svo ekki sé fastara að orði kveðið, um gólf íþróttahallarinnar með reifað vinstra lærið. Virtist hann satt að segja vera þjáður þótt vel hafi verið búið um lærið alveg niður að hné.
Ekki er ljóst að hversu alvarleg meiðslin eru og hvort þau hafi áhrif á þátttöku Gísla Þorgeirs í næsta leik Magdeburg og í komandi landsleikjum. Aðeins er rúm vika þangað til íslenska landsliðið í handknattleik mætir austurríska landsliðinu í fyrra skiptið í umspili um sæti á HM 2023. Ef meiðsli Gísla Þorgeirs eru alvarleg eru það slæm tíðindi fyrir íslenska landsliðið.
- Auglýsing -