Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon sitja áfram með SC Magdeburg í hópi þeirra fjögurra liða sem eru með fullt hús stiga í þýsku 1. deildinni í handknattleik. SC Magdeburg vann stórsigur á Balingen-Weilstetten, 27:18, á útivelli í kvöld þar sem vörn og markvarsla var aðal Magdeburg-liðsins.
Ómar Ingi skoraði fjögur mörk í fimm skotum, þar af voru tvö markanna úr vítaköstum. Einnig átti hann tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir skoraði sitt fyrsta mark í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark í sex tilraunum fyrir Balingen og átti eina stoðsendingu. Einnig var hann drjúgur í varnarleiknum gegn sterku liði Magdeburg sem virðist til alls líklegt á keppnistímabilinu.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk í þremur tilraunum og átti einnig eina stoðsendingu þegar lið hans, Bergischer HC, vann nauman sigur á Stuttgart á heimavelli, 26:25. Andri Már Rúnarsson skoraði eitt mark fyrir Stuttgart. Viggó Kristjánsson er meiddur og er staddur heima á Íslandi eins og kom fram í þessari frétt í kvöld.
Önnur úrslit:
Leipzig – HSV Hamburg 27:27.
GWD Minden – Füchse Berlin 25:31.
Staðan: