- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir og félagar unnu með 15 marka mun í Nürnberg

Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmaður SC Magdeburg og íslenska landsliðsins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

SC Magdeburg vann stórsigur á HC Erlangen, 38:23, í Nürnberg í kvöld í þýsku 1. deildinni í handknattleik þegar þráðurinn var tekinn upp á nýjan leik eftir hlé vegna landsleikja. Gísli Þorgeir Kristjánsson var að vanda allt í öllu hjá Magdeburg í leiknum. Hann skoraði sex mörk og átti fimm stoðsendingar. Einnig var honum einu sinni vikið af leikvelli. Tim Hornke og Matthias Musche skoruðu sjö mörk hvor fyrir Magdeburg í leiknum og voru markahæstir.

Magdeburg var með átta marka forskot í hálfleik, 18:10. Yfirburðir liðsins voru miklir frá upphafi til enda. Munaði þar miklu um frábæra frammistöðu Mike Jensen markvarðar. Hann varði 18 skot, 46%. Markvarslan hefur ekki þótt nægilega góð hjá Magdeburgliðinu á tímabilinu. Sú var sannarlega ekki raunin í kvöld í Arena Nürnberger Versicherung.

Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari HC Erlangen.

Í efsta sæti

Magdeburg er efst í deildinni ásamt Kiel með 45 stig. Kiel, sem vann Rhein-Neckar Löwen í kvöld, 31:27 í Mannheim, hefur leikið einum leik færra. Ýmir Örn Gíslason lék að vanda í vörn Rhein-Neckar sem situr í fimmta sæti, átta stigum á eftir efstu liðum. Staðan í deildinni er neðst í greininni.

Berlin tapaði

Füchse Berlin, sem hefur verið efst í deildinni lengst af, tapaði óvænt fyrir Stuttgart, 32:28, er fyrir vikið tveimur stigum á eftir Kiel og Magdeburg.

Endaspretturinn kom of seint

Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk og Hákon Daði Styrmisson eitt þegar Gummersbach tapaði naumlega í heimsókn til Hannover-Burgdorf, 28:27. Einni og hálfri mínútu fyrir leikslok var Hannover-Burgdorf fjórum mörkum yfir, 28:24. Endasprettur lærisveina Guðjóns Vals Sigurðssonar kom of seint. Heiðmar Felixson er að vanda aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Vikið þrisvar út af

Sveinn Jóhannsson skoraði eitt mark fyrir GWD Minden í fjögurra marka tapi fyrir HSV Hamburg í Minden, 35:31. Sveini var einnig í þrígang vísað af leikvelli, síðasta þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -