- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gísli Þorgeir og Ómar Ingi í undanúrslit

Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður og leikmaður Magdeburg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

SC Magdeburg verður eina af hinum svokölluðu Íslendingaliðum í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla um næstu mánaðarmót þegar leikið verður til úrslita. Magdeburg vann Nantes öðru sinni í átta liða úrslitum í kvöld, 30:28, á heimavelli og samanlagt með fimm marka mun, 58:53. Magdeburg vann keppnina á síðasta ári.


Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG féllu úr leik eftir jafntefli á heimavelli við Nexe frá Króatíu, 37:37. Nexe vann fyrri leikinn með fimm marka mun, 32:27, á heimavelli fyrir viku. Viktor Gísli stóð í marki GOG hluta leiksins og varði fimm skot, 18%. Alls voru skoruð 42 mörk í fyrri hálfleik en að honum loknum var GOG yfir, 22:20.


Kadetten Schaffhausen, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, tapaði með 13 marka mun fyrir Wisla Plock í Póllandi í kvöld, 35:22, og samanlagt með 15 marka mun, 68:53.


Ómar Ingi Magnússon hafði hægt um sig í kvöld og skoraði aðeins eitt mark og átti þrjár stoðsendingar fyrir Magdeburg. Gísli Þorgeir Kristjánsson komst ekki á blað í kvöld. Félagi þeirra, Daninn Michael Damgaard átti stórleik og skoraði 12 mörk.


Benfica frá Portúgal verður fjórða liðið í undanúrslitum. Benfica gerði jafntefli við slóvensku meistarana, Gorenje Velenje í kvöld, 27:27, eftir að hafa unnið fyrri leikinn með sjö marka mun, 36:29, í Lissabon fyrir viku.

Úrslitahelgi Evrópudeildarinnar verður 28. og 29. maí. Ekki liggur fyrir hvar leikið verður. Wisla Plock afþakkaði að taka leikina að sér á dögunum. Í kvöld greina fjölmiðlar í Króatíu frá því að forráðamenn Nexe ætli sér að sækja um að vera gestgjafar og að leikið verði í Zagreb. Keppnishöllin í Nexe stenst ekki kröfur til viðburða af þessu tagi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -