- Auglýsing -
- Auglýsing -

Gleðitíðindi úr herbúðum Vals í aðdraganda jóla

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals stýrir liðinu til 2025. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Handknattleiksþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson og handknattleiksdeild Vals færa stuðningsmönnum sínum þau gleðitíðindi í aðdraganda jólahátíðarinnar að Ágúst Þór og Valur hafa gert með sér samkomulag um að Ágúst Þór haldi áfram þjálfun kvennaliðs Vals til ársins 2025.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, og leikmenn hans. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson


Ágúst Þór tók við þjálfun kvennaliðs Vals árið 2017 eftir liðið hafði hafnað í 6. sæti þá varð Valur deildarmeistari á hans fyrsta tímabili 2017-2018 og komst í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins.


Vorið 2019 varð Valur deildar-, Íslands- og bikarmeistari eftir frábært tímabil. Á liðnu vori lék Valur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og komst í undanúrslit í Coca Cola-bikarnum.

„Ágúst hefur gert gífurlega góða hluti með Valsliðið síðan hann kom aftur til félagsins og væntir félagið þess að áframhald verði á því metnaðarfulla starfi sem unnið hefur verið að á undanförnum árum,“ segir í tilkynningu Vals sem birtist á samfélagssíðum félagsins.

Hefur í mörg horn að líta

Ágúst Þór er einnig aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins og mun svo í janúar einnig koma inn í landsliðsþjálfarateymi karla og vera Guðmundi Þórði Guðmundssyni til halds og trausts á EM í Ungverjalandi. Til viðbótar hefur Ágúst Þór þjálfað U18 ára landslið kvenna undanfarin misseri með afbragðsárangri.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu. Við erum með sterkan leikmannahóp og verðum það áfram á komandi árum. Eins er framtíðin mjög björt hjá félaginu og mikið af framtíðar leikmönnum á leiðinni upp í gegnum frábært yngri flokka starf deildarinnar. Ég horfi því björtum augum á framtíðina hjá Val,“ er haft eftir Ágústi Þór Jóhannssyni í tilkynningu handknattleiksdeildar Vals.


Ágúst er Þór þrautreyndur þjálfari sem hefur þjálfað fjölda liða hér á landi, jafnt í karla- sem kvennaflokki, og líka í Noregi og í Danmörku. Einnig var Ágúst Þór landsliðsþjálfari kvenna um árabil.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -