- Auglýsing -
- Auglýsing -

Góður endsprettur tryggði góða stöðu – á brattann að sækja hjá GOG og Kadetten

Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður og leikmaður Magdeburg. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Magdeburg stendur vel að vígi eftir þriggja marka sigur á franska liðinu Nantes, 28:25, í kvöld í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum keppninnar. Leikið var í Nantes og voru heimamenn yfir, 13:11, að loknum fyrri hálfleik. Magdeburgliðið sýndi styrk sinn í síðari hálfleik, ekki síst á endasprettinum, með því að skora þrjú síðustu mörkin.


Magdeburg komst fyrst yfir, 21:20, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Nantes hefur á að skipa einvala liði leikmanna og er að uppistöðu til eins skipað og þegar það fór í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta keppnistímabili.


Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Magdeburg með sex mörk auk þriggja stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk og lék stórt hlutverki í sókninni.


Valero Rivera skoraði sex mörk fyrir Nantes Aymeric Minne fimm.


Magdeburg vann Evrópudeildina á síðasta keppnistímabili.

Fimm marka tap í gryfjunni

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar standa höllum fæti eftir fimm marka tap fyrir Nexe í gryfju liðsins í Nexe í Króatíu, 32:27. Rúmum þremur mínútum fyrir leikslok var Nexe þremur mörkum yfir, 29:26, en því miður gekk sóknarleikur GOG á afturlöppunum undir lokin og því var munurinn orðinn fimm mörk þegar upp var staðið.


Viktor Gísli stóð í marki GOG allan leikinn og varði sjö skot, 19%.


Svíinn Jerry Tollbring var markahæstur hjá GOG með sjö mörk. Simon Ptlick var næstur með sex mörk. Halil Jaganjac var markahæstur með níu mörk hjá Nexe.

Skoruðu fjögur síðustu mörkin

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen töpuðu á heimavelli fyrir Wisla Plock í hörkuleik, 33:31, eftir að hafa verið marki undir að loknum fyrri hálfleik, 19:18. Kadettenliðið skoraði fjögur síðustu mörk leiksins.


Gamla spænska brýnið, Joan Canellas skoraði sjö mörk fyrir Kadetten sem og Samuel Zehnder. Lovo Mihic skoraði sex mörk fyrir Plock.

Í góðum málum

Benfica er í góðri stöðu eftir sjö marka sigur á slóvensku meisturunum Gorenje Velenje, 36:29, í Lissabon. Petar Dordic var markahæstur hjá Benfica með níu mörk og Lazar Kukic var þar á eftir með átta mörk. Atkvæðamestur við að skora mörkin hjá Gorenje var Ibramhim Haseljic með sex mörk.


Síðari leikir átta liða úrslita fara fram eftir viku.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -