Holland og Þýskaland mætast í leiknum um 5. sætið á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í hádeginu á laugardaginn. Þýskaland vann öruggan sigur á Tékklandi, 32:26, í Herning í dag.
Þar með með er ljóst að þýska landsliðið nær sínum besta árangri á HM frá árinu 2007 þegar það hreppti bronsverðlaun.
Þjóðverjar voru fljótir að jafna sig eftir slæma útreið á móti Svíum í átta liða úrslitum á miðvikudaginn. Lið þeirra tók fljótlega yfirhöndina gegn Tékkum í dag og einna minnstur var munurinn að loknum fyrri hálfleik, 14:12. Tékkar áttu fá svör við leik þýska liðsins í síðari hálfleik og niðurstaðan varð sex marka þýsku sigur á Tékklandi sem hefur komið mörgum skemmtilega á óvart á mótinu.
Viola Charlotte Leuchte var markahæst í þýska landsliðinu með sex mörk. Marketa Jerabkova skoraði einnig sex mörk fyrir Tékka og var þeirra atkvæðamest.
Meiri spenna var í viðureign Hollendinga og Svartfellinga sem var sá síðari í krossspilinu um sæti fimm til átta. Svartfellingar voru síst lakari fyrstu 45 mínúturnar. Hollensk nákvæmni sagði til á lokasprettinum.
Angela Malestein skoraði átta mörk í níu skotum fyrir hollenska landsliðið. Dijana Mugosa skoraði sex mörk og var markahæst hjá Svartfellingum.