- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grátlegt hvernig leikurinn fór

Kristinn Björgúlfsson þjálfari ÍR. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Það var grátlegt hvernig leikurinn fór. Mér fannst við vera með tök á leiknum í fyrri hálfleik. Framarar geta þakkað okkur fyrir að vera ekki nema marki undir í hálfleik. Við áttum möguleika á að vera með fjögurra eða fimm marka forskot en fórum illa að ráði okkar,“ sagði Kristinn Björgúlfsson, þjálfari karlaliðs ÍR, vonsvikinn með tap, 36:30, fyrir Fram í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í Austurbergi í gærkvöld.

„Burt séð frá því þá komum við mjög illa undirbúnir til leiks í síðari hálfleik og fengum svo sannarlega að súpa seyðið af því,” sagði Kristinn ennfremur þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir leikinn í Austurbergi.


Fram skoraði 11 mörk gegn þremur á fyrsta stundarfjórðungi síðari hálfleiks og náði sjö marka forskoti, 29:22. Nokkuð sem ÍR-ingum var um megn að vinna upp gegn baráttuglöðum leikmönnum Fram.


„Við vissum að fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik gætu skipt sköpum en því miður þá brást allt hjá okkur á þessum kafla. Okkur tókst ekki að stöðva leikmenn Fram í sókninni, markvarslan var engin né lánaðist okkur að skora eitthvað að ráði. Allt féll með Fram og þess vegna varð úr eltingaleikur gegn góðu liði Fram,“ sagði Kristinn sem virtist sleginn út af laginu eftir síðari hálfleikinn.


„Það hefði verið rosalega gott fyrir félagið að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Þess utan þá fannst mér við eiga það skilið eftir erfitt ár í fyrra að fá að fara inn á dúkinn og leika í undanúrslitum,“ sagði Kristin Björgúlfsson þjálfari ÍR í samtali við handbolta.is í Austurbergi í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -