- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grétar Ari fór á kostum í heimsókn til Dijon

Grétar Ari Guðjónsson, markvörður. Mynd/Ívar

Hafnfirðingurinn Grétar Ari Guðjónsson fór hamförum í marki franska liðsins Nice í kvöld er það lagði Dijon, 33:29, á útivelli í frönsku 2. deildinni í handknattleik. Nice rauk upp í fjórða sæti deildarinnar með þessum öfluga sigri sem Grétar Ari átti ekki hvað sístan þátt í með stórbrotinni frammistöðu.


Grétar Ari varði 17 skot, þar af eitt vítakast, sem lagði sig út á 38% markvörslu. Hann fékk aðeins 13 mörk á sig í fyrri hálfleik. Fór Nice með fimm marka forskot inn í hálfleikinn, 18:13.


Sem fyrr segir er Nice komið í fjórða sæti deildarinnar með 23 stig, er tveimur stigum á eftir Dijon sem situr í þriðja sæti. Hefur Nice-liðið ekki verið ofar í deildinni þau tvö ár sem Grétar Ari hefur verið hjá liðinu sem er til alls líklegt á endasprettinum ef fram heldur sem horfir.


Ivry, sem féll úr efstu deild á síðasta vori, hefur yfirburði í deildinni. Ivry er 11 stigum á undan Pontault sem er situr í öðru sæti með 25 stig eins og Dijon-liðið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -