- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grétar Ari skellti í lás

Grétar Ari Guðjónsson markvörður Nice. Mynd/Cavigal Nice Handball
- Auglýsing -

Grétar Ari Guðjónsson skellti hreinlega í lás í marki franska B-deildarliðsins Nice í kvöld þegar liðið mætti Sélestat á heimavelli og vann með 11 marka mun, 34:23. Grétar Ari stóð drjúgan hluta leiksins í marki Nice og varði 13 skot, var með 54% hlutfallsmarkvörslu, sem er fáheyrð frammistaða.


Nice var með 11 marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:7, ekki síst vegna stórleiks Hafnfirðingsins sem hefur leikið einstaklega vel með liðinu allt keppnistímabilið.


Nice er í sjöunda sæti deildarinnar þegar sex umferðir eru eftir með 20 stig eftir 20 leiki.

Urðu að bíta í súra eplið

Eftir sjö sigurleiki í röð urðu Elvar Ásgeirsson og samherjar í Nancy að bíta í súra eplið og tapa á heimavelli fyrir toppliði Pontault, 33:26. Nancy situr enn í þriðja sæti en vonin um efsta sætið hefur fjarlægst með tapinu í kvöld.


Upphafskafli Nice var slæmur í kvöld. Liðið varð sex mörkum undir, 9:3, og tókst aldrei að brúa bilið. Markvarslan var vart merkjanleg og varnarleikurinn dauflegur. Allt lagðist á eitt, að því er virtist.


Elvar skoraði fimm mörk í níu skotum, átti sex stoðsendingar og vann eitt vítakast.


Staðan í deildinni:
Pontault 32(19), Saran 30(18), Nancy 28(20), Cherbourg 26(20), Dijon 24(20), Massy Essonne 22(20), Nice 20(20), Strasbourg 17(20), Besancon 16(20), Sélestat 16(20), Valence 15(20), Billere 14(20), Angers 9(19), Sarrebourg 7(20).

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -