- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Gríðarlega mikilvægur sigur“

Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður BSV Sachsen Zwickau. Mynd/Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

„Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur,“ sagði landsliðskonan í handknattleik, Díana Dögg Magnúsdóttir, við handbolta.is eftir að lið hennar BSV Sachsen Zwickau vann HL Buchholz 08-Rosengarten, 25:24, í hörkuleik á heimavelli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld en þá hófst keppni á ný eftir sex vikna hlé sem gert var vegna heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik.

Díana Dögg skoraði þrjú mörk, þar af 25. og síðasta markið. Hún átti einnig fimm stoðsendingar, skapaði þrjú marktækifæri, stal boltanum einu sinni, vann þrjú vítaköst, vann þrjá andstæðinga af leikvelli og var þess utan vísað einu sinni af leikvelli.


Um var að ræða annan sigur BSV Sachsen Zwickau í deildinni í níu leikjum en liðið kom upp úr 2. deild í vor. Með sigrinum færðist BSV Sachsen Zwickau upp úr botnsæti deildarinnar og upp í það tólfta. Fyrir neðan eru HL Buchholz 08-Rosengarten og HSG Bad Wildungen Vipers með tvö stig hvort. Næsti leikur verður á móti HSG Bad Wildungen á sunnudaginn, annan dag nýs árs.

„Framundan hjá okkur eru leikir gegn liðum í neðri hluta deildarinnar svo sigurinn ætti að virka hvetjandi á liðið,“ sagði Díana Dögg sem hefur leikið stórt hlutverk hjá þýska liðinu á keppnistímabilinu. Um er að ræða aðra leiktíð hennar hjá BSV Sachsen Zwickau.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -