- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Grótta vann fyrsta stigið á Varmá

Arnar Daði Arnarsson t.v. og Maksim Akbachev stýra liði Gróttu. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Gróttumenn fögnuðu sínu fyrsta stigi í kvöld á þessu keppnistímabili sem þeir unnu gegn Aftureldingu að Varma í síðasta leik 4. umferðar Olísdeildar karla, 30:30. Þeir áttu þess kost að fá bæði stigin, voru með boltann síðustu 50 sekúndurnar en lánaðist ekki að skora sigurmarkið. Hálfur sigur er betri en enginn. Gróttumenn voru mark yfir í hálfleik, 14:13.


Aftureldingarmenn naga sig vafalaust í handarbökin. Þeim lánaðist ekki að nýta tækifæri á lokakaflanum til þess að hirða bæði stigin. Niðurstaðan er þar með tvö stig úr þremur fyrstu heimaleikjum tímabilsins.
Úrslitin eru sanngjörn í þessum mikla markaleik að Varmá þar sem sóknarleikurinn réði ríkjum á kostnað varnarleiks og markvörslu.


Ólafur Brim Stefánsson og Birgir Steinn Jónsson voru Aftureldingarmönnum óviðráðanlegir. Þeir skoruðu samtals 20 mörk. Ólafur Brim 11 úr 14 skotum og Birgir Steinn níu mörk í 11 tilraunum.


Árni Bragi Eyjólfsson og Þorsteinn Leó Gunnarsson voru allt í öllu í sóknarleik Aftureldingar ásamt Guðmundi Braga Ástþórssyni. Árni Bragi skoraði sjö mörk í tíu skotum og skapaði sjö marktækifæri. Þorsteinn Leó skoraði sjö mörk og geigaði aðeins á einu skoti. Guðmundur Bragi skapaði sjö marktækifæri til viðbótar við mörkin fjögur sem hann skoraði.

Fagnaði leik liðsins

„Ég fagna fyrst og fremst leik liðsins,” sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, í samtali við handbolta.is í kvöld.

„Það er ekkert sjálfgefið eftir þrjá tapleiki, þar af tvo með einu marki að menn hafi endalaust trú á því sem þeir eru að gera. Fyrir leikinn sagði ég við strákana að Afturelding væri með langbesta leikmannahóp landsins með tvo leikmenn í hverri stöðu. Strákarnir sýndu að þeir hafa enn trú á því sem við erum að gera og þar með geta ótrúlegir hlutir átt sér stað.
Vissulega hefði ég viljað fá bæði stigin. Hvort það hefði verið sanngjarnt eða ekki skal ég ekki segja til um en miðað við það sem á undan er gengið hjá okkur hefði það e.t.v. ekki verið ósanngjarnt. Stigið er gott fyrir framhaldið en frammistaðan var geggjuð,“ sagði Arnar Daði þjálfari Gróttu.

Vorum ekki nógu skynsamir

„Við vorum á stundum sjálfum okkur verstir. Nýttum ekki okkar tækifæri á síðustu tíu mínútunum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar sem var daufari í dálkinn en kollegi hans hjá Gróttu.


„Gróttumenn gerðu þetta vel. Þeir sýndu þolinmæði, voru skynsamir og köstuðu ekki boltanum frá sér. Léku sinn leik vel,“ sagði Gunnar sem var ekki sammála dómurunum að gefa Gróttumönnum tækfæri til þess að vera með boltann síðustu 50 sekúndurnar.


„Fyrst og síðast er ég svekktur út í okkar frammistöðu. Við fengum á okkur 30 mörk sem er of mikið,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.

Mörk Aftureldingar: Árni Bragi Eyjólfsson 7, Þorsteinn Leó Gunnarsson 7, Þrándur Gíslason Roth 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson 4, Einar Ingi Hrafnsson 3, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 3/1, 37,5% – Andri Sigmarsson Scheving 2, 7,4%.

Mörk Gróttu: Ólafur Brim Stefánsson 11, Birgir Steinn Jónsson 9/1, Jakob Ing Stefánsson 3, Andri Þór Helgason 2, Ívar Logi Styrmisson 2, Gunnar Dan Hlynsson 1, Ágúst Emil Grétarsson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 8, 21,1%.


Alla tölfræði leiksins er hægt að sjá hjá HBStatz.


Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla er hægt að sjá hér.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -