Handknattleikskonan Hafdís Shizuka Iura hefur ákveðið að ganga til liðs við Víking sem leikur í Grill66-deildinni. Hafdís, sem er 28 ára gömul, lék síðast með HK en hefur einnig leikið með Fylki og Fram þar sem hún var lengi vel. Alls hefur Hafdís tekið þátt í ríflega 150 leikjum í efstu deild kvenna.
Ásamt því að leika með meistarflokki Víkings þá mun Hafdís koma inn í þjálfun hjá yngri flokkum félagsins.
„Hafdís er mikill hvalreki fyrir félagið og er hluti af þeirri uppbyggingu sem er að eiga sér stað hjá Víking og erum við spennt fyrir framhaldinu,“ segir í tilkynningu frá Víkingi.
Jón Brynjar Björnsson var nýverið ráðinn þjálfari Víkingsliðsins auk þess sem félagið hefur upp á síðkastið samið til tveggja ára við nokkra af máttarstólpum sínum s.s. Auði Brynju Sölvadóttur, Ester Ingu Ögmundsdóttur, Ídu Bjarklind Magnúsdóttur og Örnu Þyrí Ólafsdóttur.