- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haft fyrir sigri í Safamýri

Byrnjólfur Snær Brynjólfsson leikmaður Hauka. Mynd/Haukar topphandbolti
- Auglýsing -

Haukar þurftu svo sannarlega að hafa fyrir stigunum tveimur sem þeir sóttu í heimsókn sinni til Fram í Safamýri í kvöld í lokaleik 19. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik. Þótt sex mörkum hafi munað þegar upp var staðið, 35:29, þá varð sá munur aðeins til á síðustu tíu mínútum leiksins og gefur ekki rétta mynd af þeim skemmtilega og jafna leik sem fór fram á fjölum Framhússins að þessu sinni.


Haukar eru þar með aðeins einu stigi frá deildarmeistaratitlinum og geta innsiglað stigin í næstu umferð þegar þeir taka á móti FH í Schenkerhöllinni.


Fram er áfram á barmi þess að tryggja sér sæti á meðal þeirra átta liða sem komast í úrslitkeppnina. Miðið við ákefðina sem leikmenn lögðu í leikinn í kvöld eiga þeir það skilið vera á meðal liðanna átta.

Fram byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fjögur af fyrstu sex mörkum leiksins. Haukum tókst að stoppa upp í vörn sína um skeið og það skilað sér í fimm mörkum í röð og þriggja marka forskoti, 7:4. Svo virtist um skeið sem leikmenn Hauka ætluðu að hrista Framara af sér. Raunin varð önnur.
Framarar minnkuðu muninn í eitt mark, 11:10, og áttu möguleika á að jafna metin en fóru illa að ráði sínu og Haukar svöruðu með tveimur mörkum í röð, 13:10. Enn tókst Fram að koma til baka og minnka muninn í eitt mark, 16:15, með marki Vilhelm Poulsen á síðustu sekúndu þegar varnarmenn Hauka voru farnir að hugsa heldur hlýlega til hálfleikshlésins.


Fyrri hálfleikur var hraður og nokkuð um átök og pústra. Ljóst var að Framarar voru mættir til leiks í þeim tilgangi að sækja stig.

Spennustigið hækkaði meðal leikmanna í síðari hálfleik sem setti sterkan svip á leikinn. Þess utan verður seint sagt að leikurinn hafi verið hnökralaust dæmdur sem bætti ekki úr skák og varð til þess að sett var út á flesta dóma, rétta sem ranga.


Jafnt var á öllum tölum fram eftir síðari hálfleik og þegar hann var hálfnaður var staðan jöfn, 23:23. Adam Haukur Baumruk kom Haukum í fyrsta sinn tveimur mörkum yfir, 25:23, þegar 13 mínútur voru eftir af leiktímanum.


Haukar voru einbeittari á lokakaflanum og nýttu sér mistök Framara til hraðaupphlaupa. Þannig náðu Haukar í fyrsta sinn fjögurra marka forskoti, 31:27, þegar fimm og hálf mínúta var til leiksloka. Þar með var björninn unninn.

Óhætt er að segja að Framarar hafi lagt allt í leikinn og látið leikmenn Hauka hafa svo sannarlega fyrir sigrinum. Það er hinsvegar meira en að segja að það að leggja Hauka sem hafa mörg vopn í búri sínu um þessar mundir.


Mörk Fram: Vilhelm Poulsen 7, Andri Már Rúnarsson 6, Stefán Darri Þórsson 4, Kristinn Hrannar Bjarkason 3, Þorgrímur Smári Ólafsson 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Matthias Bernhöj Daðason 2/2, Arnar Snær Magnússon 1, Andri Róbertsson 1, Ólafur Jóhann Magnússon 1/1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 7, 20,6% – Valtýr Már Hákonarson 1, 11,1%.
Mörk Hauka: Adam Haukur Baumruk 6, Stefán Rafn Sigurmannsson 6/2, Geir Guðmundsson 5, Þráinn Orri Jónsson 5, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Orri Freyr Þorkelsson 3, Heimir Óli Heimisson 3, Tjörvi Þorgeirsson 2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 5, 20,8% – Andri Sigmarsson Scheving 4, 30,8%.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -