Hákon Daði Styrmisson var næst markahæstur hjá Eintracht Hagen í kvöld þegar liðið vann Bayer Dormagen, 35:28, í upphafsleik áttundu umferðar þýsku 2. deildarinnar í handknattleik á heimavelli. Eyjamaðurinn skoraði fimm mörk, ekkert þeirra af vítalínunni þar sem hann fékk ekki tækifæri til þess að spreyta sig að þessu sinni.
Hagen var yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:12. Þetta var annar sigur liðsins í röð og er það nú komið upp í miðja deild með átta stig. Reyndar eiga flest liðin í deildinni inni leik, en er á meðan er.
Áfram er á brattann að sækja hjá Sveinbirni Péturssyni og samherjum og nýliðum 2. deildar, EHV Aue. Þeir töpuðu í kvöld á heimavelli fyrir Potsdam, 32:30. Sveinbjörn stóð um þriðjung leiktímans í mark EHV Aue og varði fjögur skot, þar af eitt vítakast, 25%.
EHV Aue er neðst með tvö stig eins og hinir nýliðarnir, TuS Vinnhorst, sem unnu óvænt Elbflorenz frá Dresden, 32:29, á heimavelli í kvöld.
Stöðuna í þýsku 2. deildinni og fleiri deildum Evrópu er að finna hér.