- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hákon Daði verður lærisveinn Guðjóns Vals

Hákon Daði Styrmisson fer til Gummersbach í sumar. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Hákon Daði Styrmisson, leikmaður ÍBV, hefur skrifað undir tveggja ára samning við þýska handknattleiksliðið Vfl Gummersbach sem Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar og annar Eyjamaður leikur með, Elliði Snær Viðarsson.
Gummersbach greinir frá þessu á samfélagsmiðlum sínum í morgun.

Hákon Daði á að fylla skarð austurríska hornamannsins Raul Santos sem rær á önnur mið í sumar.


Hákon Daði er 23 ára gamall vinstri hornamaður. Hann er alinn upp í Eyjum og lék með ÍBV þangað til í ársbyrjun 2016 að hann flutti sig um set til Hauka hvar hann lék í þrjú ár. Hákon Daði fór aftur til ÍBV sumarið 2018. Hann er nú markahæsti leikmaður Olísdeildar karla með 138 mörk í 18 leikjum.


Hákon Daði hefur leikið sex A-landsleiki og skorað í þeim 23 mörk. Síðast lék hann með A-landsliðinu gegn Litáum í Laugardalshöll í nóvember og fór þá á kostum.


Gummersbach er í harðri baráttu um að endurheimta sæti sitt í þýsku 1. deildinni. Liðið er í þriðja sæti með 41 stig eftir 27 leiki og er stigi á eftir HSV Hamburg og N-Lübbecke þegar 10 umferðir eru eftir.


Guðjón Valur Sigurðsson tók við þjálfun Gummersbach á síðasta sumri en liðið er eitt það fornfrægasta í þýskum handknattleik og hefur bækistöðvar skammt frá Köln.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -