- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hákon og Örn fögnuðu – öðrum gekk miður – Stórleikur Eyjamannsins

Hákon Daði Styrmisson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Á ýmsu gekk hjá nokkrum hópi Íslendinga sem tóku þátt í leikjum 19. umferðar 2. deildar þýska handknattleiksins í karlaflokki í kvöld. Hákon Daði Styrmisson og samherjar í Eintracht Hagen unnu sína viðureign og sömu sögu er að segja af Erni Vésteinssyni Östenberg og liðsmönnum Lübeck-Schwartau. Öðrum gekk síður m.a. liðsmönnum GWD Minden sem voru um tíma með yfirhöndina í heimsókn til Hüttenberg en máttu um síðir bíta í súra eplið og tapa enn einum leiknum.

Talsverðir yfirburðir

Örn og liðsmenn VfL Lübeck-Schwartau höfðu talsverða yfirburði frá upphafi í viðureign sinni við næst neðsta lið deildarinnar, TuS Vinnhorst og unnu með 10 marka mun á heimavelli, 30:20. Staðan að loknum fyrri hálfleik var, 18:7. Örn skoraði ekki í leiknum þrátt fyrir skot á mark Vinnhorst.

Náði ekki öðrum sigri í röð

Ólafi Stefánssyni og leikmenn hans í EHV Aue tókst ekki að fylgja eftir góðum sigri á laugardaginn þegar þeir sóttu ASV Hamm í kvöld. Hamm féll út 1. deild í vor og er í toppbaráttu á sama tíma og EHV Aue rekur lestina. Úrslitin voru í samræmi við stöðu liðanna í deildinni, 37:28. Sveinbjörn Pétursson stóð í á milli stanganna í marki EHV Aue annan hálfleikinn og varði sjö skot, þar af tvö vítaköst 29%.

Markahæstur á vellinum

Hákon Daði átti stórleik með Eintracht Hagen í sigri á Dessau-Roßlauer HV 06, 37:32, að viðstöddum 1.302 áhorfendum í Ischelandhalle í Hagen. Eyjamaðurinn skoraði níu mörk í 10 tilraunum og varð markahæstur á vellinum. Ekkert markanna skoraði Hákon Daði frá vítastrikinu. Hagen er komið upp í sjötta sæti deildarinnar eftir sigra upp á síðkastið.

Áfram í fimmta sæti

Tumi Steinn Rúnarsson og liðsmenn Coburg 2000 töpuðu í heimsókn til TV Großwallstadt, 34:29, en sitja áfram í fimmta sæti. Tumi Steinn skoraði eitt marki.

Vann ekki á gamla heimavellinum

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari GWD Minden mætti með liðsmenn sína á gamla heimavöllinn, Sportzentrum Hüttenberg. Aðalsteinn þekkir þar hvern krók og kima síðan hann þjálfaði Hütttenberg með frábærum árangri frá 2015 til 2017.

Mindenliðið var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og hafði þriggja marka forskot þegar síðari hálfleikur hófst, 16:13. Leikmenn Hüttenberg komu og sneru fljótlega við taflinu og komust yfir. Fjórum mínútum fyrir leikslok komst Minden marki yfir 27:26. Það dugði skammt.

Sex íslensk mörk

Sveinn Jóhannsson skoraði fjögur mörk í fjórum skotum fyrir GWD Minden og var einu sinni vikið af leikvelli. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu.

GWD Minden hefur aðeins unnið einn af síðustu 10 leikjum sínum í deildinni og er fyrir vikið í 15. sæti af 18 liðum deildarinnar með 11 stig.

Næstu leikir í 2. deild verða snemma í febrúar.

Staðan:

Standings provided by Sofascore
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -