Hákon Daði Styrmisson fór hamförum í dag þegar hann skorað 15 mörk í 16 skotum í níu marka sigri ÍBV á ÍR í Olísdeild karla í Vestmannaeyjum, 32:23. Eyjamanninum unga og sprettharða héldu engin bönd og vissu ÍR-ingar hreinlega ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Hákon Daði kann greinilega vel við sig á móti ÍR því hann skoraði 13 mörk í fyrri viðureign liðanna í Olísdeildinni í haust.
Tíu af 15 mörkum sínum skoraði Hákon Daði í fyrri hálfleik. Alls skoraði hann úr öllum níu vítaköstum sínum að þessu sinni.
Auk Hákons Daða þá átti markvörðurinn Petar Jokanovic stórleik í marki ÍBV, varði 17 skot og var með 43,6% hlutfallsmarkvörslu. Arnór Viðarsson lék einnig afar vel. Auk fimm marka, stöðvaði hann sóknarmenn ÍR sjö sinnum á löglegan hátt, varði eitt skot og hirti tvö fráköst.
Með sigrinum komst ÍBV úr áttunda sæti upp í fimmta til sjöunda, alltént í bili, með 13 stig eftir 12 leiki. ÍR-ingar sitja sem fyrr á botninum án stiga að loknum 12 leikjum og ljóst er að það syrtir áfram í álinn hjá Breiðhyltingum.
ÍR-ingum tókst að veita ÍBV keppni í fyrri hálfleik. Að honum loknum var aðeins þriggja marka munur á liðunum, 16:13. Í síðari hálfleik skildu leiðir og Eyjamenn tryggðu sér góðan sigur.
Mörk ÍBV: Hákon Daði Styrmisson 15/9, Arnór Viðarsson 5, Dagur Arnarsson 5, Sigtryggur Daði Rúnarsson 2, Sveinn Jose Rivera 2, Nökkvi Snær Óðinsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1, Theodór Sigurbjörnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 17, 43,6% – Páll Eiríksson 2, 66,7%.
Mörk ÍR: Gunnar Valdimar Johnsen 6, Andri Heimir Friðriksson 4, Ólafur Malmquist 4, Viktor Sigurðsson 3, Bjarki Steinn Þórisson 2, Dagur Sverrir Kristjánsson 2, Sveinn Brynjar Agnarsson 1, Logi Ágústsson 1.
Varin skot: Óðinn Sigurðsson 10, 33,3% – Ólafur Rafn Gíslason 2, 14.3%.