„Það er svo sætt að hafa komið til baka eftir meiðslin og unnið, halelúja hvað ég er ánægð,“ sagði Hafdís Renötudóttir markvörður Fram og besti markvörður Olísdeildar kvenna á keppnistímabilinu í samtali við handbolta.is eftir að Hafdís og félagar höfðu unnið Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik með þriðja sigrinum á Val í fjórum úrslitaleikjum liðanna um Íslandsmeistaratitilinn þetta vorið. Þetta var um leið í fyrsta sinn sem Hafdís verður Íslandsmeistari í meistaraflokki.
Hafdís missti af öllu keppnistímabilinu 2020/2021 vegna ítrekaðra höfuðmeiðsla sem m.a. gerðu að engu samning hennar við sænska úrvalsdeildarliðið Lugi. Hafdís gekk til liðs við Fram á ný á síðasta sumri og hefur svo sannarlega átt frábært keppnistímabil á milli stanganna hjá liðinu. Samkvæmt samantekt HBStatz var Hafdís með 38,2% hlutfallsmarkvörslu á leiktíðinni.
Söknum Ragnheiðar
„Það er frábært að spila með Framliðinu. Þetta er svo yndislegur hópur. Eina sem okkur vantar er Ragnheiður [Júlíusdóttir]. Hún kemur vonandi aftur inn í hópinn í haust. Það myndi toppa liðið okkar,“ sagði Hafdís. Ragheiður hefur verið frá æfingum og keppni síðan í janúar vegna veikinda.
Frábærir stuðningsmenn
Hafdís sem vakið hefur athygli á keppnistímabilinu fyrir glaðlega framkomu í leikjum og að fagna hverri vörslu með því að hlaupa til áhorfenda og fá þá með sér. Þann leik lék hún einnig í gærkvöldi enda var Hafdís þakklát fyrir mikinn stuðning Framara við liðið í úrslitakeppninni, ekki síst í gærkvöld.
„Ég er svo hrikalega ánægð með stuðningsmennina okkar sem fjölmenntu á leikinn. Okkar hlutar í stúkunum voru nær því fullskipaðir. Meðan var holótt í Valsstúkunni.
Ég vil þakka okkar stuðningsmönnum fyrir að hafa hjálpað okkur að vinna leikinn í kvöld. Það er svo gaman að fá stuðning til baka frá áhorfendum þegar maður fagnar upp í stúkuna. Þetta var bara geðveikt,“ sagði Hafdís sem hafði svo sannarlega fyllstu ástæðu til þess að gleðjast að leikslokum eftir langt og strangt keppnistímabil.