Mikkel Hansen kætti stuðningsmenn Aalborg Håndbold í kvöld þegar hann lék afar vel og skoraði níu mörk í öðrum leik sínum fyrir félagið er það lagði Skanderborg Aarhus, 33:28, í annarri umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik. Álaborgarliðið er með fjögur stig eftir tvo leiki. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.
Aron Pálmarsson var því miður fjarverandi vegna meiðsla en þau tóku sig upp hjá honum í leik Aalborg og GOG í meistarakeppninni fyrir nærri tveimur vikum.
Annar í röð hjá Guðmundi
Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia Håndboldklub sóttu tvö stig í heimsókn sinni til Lemvig-Thyborøn, 25:24. Fredericia Håndboldklub hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.
Einar Þorsteinn Ólafsson var í leikmannahópi Fredericia í kvöld en kom lítið við sögu. Hann hefur glímt við meiðsli.
Daníel Freyr Andrésson sat á varamannabekknum lengst af hjá Lemvig. Hann kom í markið til þess að freista þess að verja vítakast en tókst ekki að koma í veg fyrir mark. Vilhelm Poulsen, fyrrverandi leikmaður Fram, skoraði eitt mark fyrir Lemvig.
Sveinn var í hópnum
Sveinn Jóhannsson var í leikmannahópi Skjern í kvöld þegar liðið vann stórsigur á fyrrverandi liði hans, SønderjyskE, 27:20. Sveinn er óðum að jafna sig eftir afar erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni allt þetta ár.
Halldór Jóhann Sigfússon mátti sætta sig við að horfa upp á liðsmenn sína tapa fyrir Nordsjælland á útivelli, 29:27.
Staðan: