- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hansen kom með einkavél til Álaborgar

Mikkel Hansen er væntanlegur á morgun á æfingu hjá Aalborg Håndbold. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Hátíð er í bæ hjá danska úrvalsdeildarliðinu Aalborg Håndbold í dag en handknattleiksstjarnan Mikkel Hansen er nú orðinn formlegur leikmaður félagsins. Fjölmiðlar hafa fylgt Hansen hvert fótmál síðan hann steig upp í einkaflugvél á Hróaskelduflugvelli í morgun sem flutti hann til Álaborgar. Þar tók við fyrsta æfing með nýjum liðsfélögum, þar á meðal Aroni Pálmarssyni. Fulltrúar nokkurra fjölmiðla voru með í flugvélinni þessa stuttu leið og má m.a. sjá myndir í meðfylgjandi frétt TV2.


Hansen fékk höfðinglegar mótttökur í Álaborg enda hefur ríkt mikil eftirvænting hjá félaginu og stuðningsmönnum fyrir komu hans. Hansen er að öðrum ólöstuðum þekktasti handknattleiksmaður tvöfaldra heimsmeistara Dana og ein skærasta íþróttastjarna Danmerkur um árabil.

Skattareglur töfðu komuna

Þrátt fyrir að Aalborg hafi byrjað æfingar fyrir nokkrum vikum og Hansen verið laus undan samningi við PSG í Frakklandi síðn í byrjun júlí þá varð hann ekki liðsmaður Aalborg fyrr en í dag vegna skattareglna í Danmörku.

2.000 manns væntanlegir

Eftir æfingu með liðinu fyrr í dag var blaðamannafundur með Hansen áður en liðið hélt opinbera leikmannakynningu fyrir komandi keppnistímabil. Þar var auk leikmanna opinberaður nýr búningur liðsins. Reiknað var með a.m.k. 2.000 stuðningsmönnum á kynninguna í Gigantium íþróttahöllinni í Álaborg.

Fékk blóðtappa í mars

Hansen fékk blóðtappa í lunga í mars þegar hann gekkst undir litla aðgerð vegna hnémeiðsla. Vonir standa til þess að hann hafi náð fullri heilsu. Í samtali við TV2 segist Hansen enn taka blóðþynningarlyf. Hann væntir þess að leika í fyrsta sinn með Aalborg eftir miðjan september gangi allt að óskum.


Fyrsti leikur Aalborg verður gegn meisturum GOG í meistarakeppninni annað kvöld.


Aron Pálmarsson er ekki eini Íslendingurinn sem mun vinna með Hansen hjá Aalborg-liðinu á næsta keppnistímabili. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari liðsins.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -