- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar geta gert út um einvígið á sunnudaginn

Andri Már Rúnarsson og Aron Rafn Eðvarðsson markvörður. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Haukar eru komnir með yfirhöndina í undanúrslitarimmunni við Aftureldingu eftir eins marks sigur, 31:30, í framlengdum þriðja leik liðanna á Varmá í kvöld. Guðmundur Bragi Ástþórsson skoraði sigurmarkið þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka. Stundum þarf ekki að leika vel til þess að vinna leiki, sagði ágætur Haukamaður sem handbolti.is hitti á leið sinni út á bílastæðið við íþróttahúsið að Varmá í kvöld. Það eru orð að sönnu.

Það er eitthvað fleira en óhagstæð dómgæsla sem kostar Aftureldingu tap í jöfnum úrslitaleikjum hvað eftir annað.

Haukar hafa þar með tvo vinninga en Afturelding einn. Fjórða viðureign liðanna verður á Ásvöllum á sunnudaginn og verður flautað til leiks klukkan 16.

Féll allur ketill í eld

Aftureldingarmenn fóru illa að ráði sínu í kvöld. Þeir voru með fjögurra marka forskot þegar þrjár og og hálf mínúta var eftir, 27:23. Eftir það féll mönnum allur ketill í eld við sóknarleikinn og Haukar, sem léku alls ekki vel, gengu á lagið og jöfnuðu metin, 27:27.

Síðasta markið skoraði Stefán Rafn Sigurmannsson úr vítakasti sem dæmt var eftir að Ihor Kopyshynskyi stöðvaði Haukamann út við hliðarlínu þegar átta sekúndur voru til leiksloka. Auk vítakastsins fékk Kopyshynskyi rautt spjald eftir að dómararnir höfðu farið yfir sjónvarpsupptöku af atvikinu. Þeir hljóta þar með að hafa verið vissir í sinni sök.

Auk Kopyshynskyi voru Aftureldingarmenn með mann í kælingu og voru þar með tveimur mönnum færri fyrstu mínútu framlengingarinnar.

Haukar voru sterkari í fyrri hluta framlengingarinnar. Mosfellingar sóttu í sig veðrið þegar á framlenginguna leið en það dugði ekki til.

Þorsteinn Leó Gunnarsson að skora eitt 12 marka sinn í kvöld. Mynd/Raggi Óla

Gott forskot lengi vel

Aftureldingarliðið var mikið sterkara í fyrri hálfleik og var fimm mörk yfir í hálfleik, 14:9. Í upphafi síðari hálfleiks var forskotið komið í sex mörk. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður munaði fimm mörkum 22:17, eftir að Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði eitt af 12 mörkum sínum í leiknum. Tíu mínútum fyrir leikslok voru Haukar fjórum mörkum undir og aftur þegar hálf fjórða mínúta var eftir af leiktímanum.

Hlýtur að vera fleira

Hvað sem segja má um dómgæsluna í leiknum í kvöld og í öðrum leiknum á mánudaginn þá er alveg ljóst að Aftureldingarliðið glímir enn við sama vandamál og á köflum í vetur. Eitthvað fleira en einstök óheppni með dómgæslu leik eftir leik hlýtur að herja á liðið. Aftureldingu tekst ekki að vinna leiki þrátt fyrir að hafa vænlega forystu lengi vel. Vafalaust spilar þreyta inn í en mjög mikið mæðir á sömu leikmönnunum í sókninni þar sem breiddin af sóknarmönnum er ekki næg.

Aftur og enn

Annan leikinn í röð tekst Haukum að komast inn í leiki þrátt fyrir að t.d. markvarsla liðsins sé í lágmarki. Aron Rafn Eðvarðsson varði vel framan af fyrri hálfleik og var síðan öflugur í framlengingu auk þess að verja tvö slök skot undir lok venjulegs leiktíma.

Mörk Aftureldingar: Þorsteinn Leó Gunnarsson 12, Árni Bragi Eyjólfsson 5/1, Ihor Kopyshynskyi 3, Birkir Benediktsson 3, Blær Hinriksson 3/1, Einar Ingi Hrafnsson 2, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 1, Böðvar Páll Ásgeirsson 1.
Varin skot: Jovan Kukobat 12/1, 27,3%.

Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 10, Guðmundur Bragi Ástþórsson 6/1, Geir Guðmundsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2/1, Kristófer Máni Jónasson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Þráinn Orri Jónsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Össur Haraldsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 13, 30,2%.

Handbolti.is var að Varmá fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -