- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar komnir á þekktar slóðir

Byrnjólfur Snær Brynjólfsson leikmaður Hauka. Mynd/Haukar topphandbolti
- Auglýsing -

Haukar tylltu sér á ný á topp Olísdeildar karla í handknattleik með öruggum sigri á Stjörnunni, 32:26, í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld í 3. umferð deildarinnar. Haukar hafa þar með sex stig að loknum þremur leikjum og verður að segjast eins og er að þeir hafa verið afar sannfærandi í tveimur síðustu leikjum sínum í deildinni.


Stjarnan er þar með áfram í neðri hlutanum með eitt stig. Liðið var marki undir í hálfleik, 15:14, og tókst að elta Hauka í 40 mínútur. Þá skildu leiðir.
Leikurinn var afar jafn og spennandi frá upphafi. Hraðinn var mikill og Stjarnan hélt alveg í við Haukamenn í hlaupum. Ef eitthvað var þá skoraði Stjarnan fleiri mörk en Haukar eftir hraðaupphlaup í fyrri hálfleik. Mark á mínútu fresti eða því sem næst. Haukar voru marki yfir hálfleik, 15:14.


Stjarnan hélt áfram að halda í við Hauka á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks. Upp úr því tóku leiðir liðanna að skilja. Reynsla og breiðari leikmannahópur Hauka fór að segja til sín þegar á leið. Þess utan er ekki hægt að bera saman markvörsluna hjá liðunum. Björgvin Páll Gústavsson var með yfir 40% hlutfallsmarkvörslu á meðan kollegar hans í marki Stjörnunnar áttu erfitt uppdráttar.


Munurinn fór fljótlega upp í þrjú mörk. Stjörnumenn þurftu að hafa meira fyrir sínum mörkum en gestirnir af Ásvöllum og um miðjan hálfleikinn skildu fimm mörk liðin að. Haukar voru með öll ráð í sínum höndum og unnu öruggan sigur.


Tandri Már Konráðsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 6 mörk. Leó Snær Pétursson, Hafþór Már Vignisson, Starri Friðriksson, Björgvin Þór Hólmgeirsson og Brynjar Hólm Greársson skoruðu þrjú mörk hver.
Brynjar Darri Baldursson varði 5 skot í marki Stjörnunnar, 23,8%. Adam Thorsteinsen 2 skot, 12,5%.


Orri Freyr Þorkelsson skoraði 10 mörk fyrir Hauka, þar af var helmingur úr vítaköstum. Atli Már Báruson var næstur með 8 mörk og átti afar góðan leik. Tjörvi Þorgeirsson skoraði fimm, öll í fyrri hálfleik.


Björgvin Páll varði 17 skot, 41,5% hlutfallsmarkvarsla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -