- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar stigu stórt skref

Darri Aronsson, Haukum, í skotstöðu í kappleik. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Deildarmeistarar Hauka stigu stórt skref í átt að úrslitaleikjunum um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld þegar þeir lögðu Stjörnuna með fimm marka mun, 28:23, í TM-höllinni í Garðabæ í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum. Haukar lögðu grunn að sigrinum í fyrri hálfleik þegar þeir náðu sjö marka forskoti áður en hann var á enda, 15:8.

Stjarnan hélt í við Hauka fyrstu 12 mínúturnar. Að þeim tíma liðnum var staðan jöfn, 6:6. Heimamenn skoruðu aðeins tvö mörk á síðustu 19 mínútum hálfleiksins og misstu Hafnfirðinga þar með langt fram úr sér. Sóknarleikur Stjörnunnar gekk engan veginn gegn sterkri vörn Hauka auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson varði vel.


Leikmenn Stjörnunnar náðu áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks og náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 16:13, þegar átta mínútu voru liðnar. Nær komust þeir ekki aftur fyrr en á lokaflanum. Þegar um fimm mínútu voru til leiksloka gat Stjarnan minnkaði muninn í tvö mörk, 24:22. Það lánaðist ekki og þar með var eftirleikurinn auðveldur fyrir leikmenn Hauka.


Stjarnan gerði alltof mörg einföld mistök í sóknarleiknum til þess að eiga möguleika í leiknum. Gegn jafn sterku liði og Haukar eru þá verða einföld mistök eins og slakar sendingar og vanhugsuð markskot að vera í algjöru lágmarki. Sú var ekki raunin hjá Stjörnumönnum að þessu sinni.


Leikurinn var fjörugur og nokkuð hraður með talsvert af umdeildum atvikum. Björgvin Páll þótti ganga nokkuð vasklega út á móti Pétri Árna Haukssyni í fyrri hálfleik. Ágætir dómarar leiksins, Magnús Kári Jónsson og Heimir Örn Árnason, viku Björgvini Páli af leikvelli í tvær mínútur eftir að hafa farið yfir upptöku af atvikinu. Þótti mörgum vel sloppið þótt enginn ásetningur hafi verið af hálfu Björgvins. Snemma í síðari hálfleik fékk Adam Thorstensen bylmingshögg á andlitið og kom ekkert meira við sögu.


Björgvin Þór Hólmgeirsson var lang besti leikmaður Stjörnunnar. Hann hélt uppteknum hætti frá síðasta leik. Hann tók af skarið og dró vagninn í sóknarleik liðsins þegar illa gekk. Patrekur Jóhannesson reyndi eitt og annað jafnt í vörn sem sókn en fæst af því gekk sem skildi enda Haukar ýmsu vanir.


Haukar nýttu breiddina í leikmannahópnum sem fyrr og dreifðu þar með álaginu vel. Liðið er orðið afar rútínerað og óárennilegt. Mikið þarf að gerast á föstudaginn til að Haukar fari ekki áfram í næstu umferð.


Mörk Stjörnunnar: Björgvin Þór Hólmgeirsson 10/3, Tandri Már Konráðsson 3, Sverrir Eyjólfsson 2, Hafþór Már Vignisson 2/1, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Starri Friðriksson 2, Leó Snær Pétursson 1, Pétur Árni Hauksson 1.
Varin skot: Brynjar Darri Baldursson 4, 18,2% – Adam Thorstensen 2, 28,6%, Sigurður Dan Óskarsson 0
Mörk Hauka: Darri Aronsson 5, Geir Guðmundsson 4, Orri Freyr Þorkelsson 3/3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Þráinn Orri Jónsson 2, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Heimir Óli Heimisson 2, Atli Már Báruson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 36,4% – Andri Sigmarsson Scheving 0.
Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -