Haukur Þrastarson leikur til úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik á morgun með samherjum sínum í pólska meistaraliðinu Łomża Vive Kielce eftir sigur á ungverska liðinu Veszprém, 37:35, í undanúrslitum í Lanxess-Arena í Köln í dag. Síðar í dag kemur í ljós hvort það verður þýska liðið Kiel eða Barcelona frá Spáni sem mætir Łomża Vive Kielce í úrslitaleik sem hefst klukkan 16 á morgun.
Haukur lék með í rúmar tíu mínútur í síðari hálfleik í dag og stóð sig afar vel. Hann átti tvö markskot og skoraði eitt mark. Auk þess átti hann línusendingu sem skilaði vítakasti og marki.
Veszprém liðið var sterkara í fyrri hálfleik og var með tveggja marka forskot að honum loknum, 18:16. Łomża Vive Kielce jafnaði strax í byrjun síðari hálfleiks með tveimur mörkum frá Daniel Dujshebaev. Eftir það komst liðið yfir og hafði tveggja til fjögurra marka forskot allt til leiksloka. Síðari hálfleikur var frábær.
Sóknarleikurinn gekk vel og varnarleikurinn einnig um leið og Andreas Wolff markvörður vaknaði til lífsins eftir daufan fyrri hálfleik.
Leikmenn Veszprém voru utan vallar í 22 mínútur en liðsmenn Kielce í 12 mínútur og munar um minna.
Mörk Veszprém: Rasmus Lauge 8, Manuel Strlek 7, Petar Nenadic 6, Gasper Marguc 6, Yahia Omar 4, Jorge Maqueda 1, Andreas Nilsson 1, Blaz Blagotinsek 1, Kentin Mahe 1.
Varin skot: Rodrigo Corrales 13, 31%.
Mörk Łomża Vive Kielce: Arkadiusz Moryto 8, Igor Karacic 5, Uladzislau Kulesh 4, Alex Dujshebaev 4, Nicolas Tournat 4, Daniel Dujshebaev 3, Artsem Karalek 2, Dylan Nahi 2, Branko Vujovic 2, Szymon Sicko 2, Haukur Þrastarson 1.
Varin skot: Andreas Wolff 9, 24% – Mateusz Kornecki 2, 29%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.