- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef fundið mig vel og fengið mikið að spila

Aldís Ásta Heimisdóttir leikmaður Skara HF í Svíþjóð. Mynd/Mummi Lú
- Auglýsing -

„Ég hef fundið mig mjög vel og hef fengið mikið að spila sem er plús og það sem ég sóttist eftir þegar ég ákvað að breyta til,“ sagði Akureyringurinn Aldís Ásta Heimisdóttir í stuttu samtali við handbolta.is þegar hún var hér heima á dögunum við æfingar og leiki með landsliðinu.

Þrír Íslendingar

Aldís Ásta ákvað í sumar sem leið að kveðja KA/Þór og reyna fyrir sér hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Skara HF í bænum Skara á vestur Gautlandi. Fljótlega fylgdi samherji Aldísar Ástu hjá KA/Þór, Ásdís Guðmundsdóttir, í kjölfarið og í síðasta mánuði bættist Jóhanna Margrét Sigurðardóttir í hópinn.

Er eingöngu á miðjunni

„Ég hef eingöngu leikið á miðjunni í sókn með Skara. Það er breyting frá KA/Þór þar sem ég var talsvert í skyttustöðunni vinstra megin. Ég er ánægð með þessa breytingu og þakklát fyrir hversu vel mér hefur gengið,“ sagði Aldís Ásta og bætti við að ekki spilli fyrir að henni hafi verið afar vel tekið af samherjum og stjórnendum félagsins. „Ég hef fallið vel inn í hópinn og umhverfið ytra og kann afar vel við mig.“

Aldís Ásta var ekki með landsliðinu í fyrri leiknum við Ísrael um síðustu helgi. Hún er hér lengst t.v. að fylgjast með ásamt Hildigunni Einarsdóttur og Ethel Gyðu Bjarnasen. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Vantaði meiri breidd

Leikmannahópur Skara HF er ekki mjög mjög fjölmennur. Þar af leiðandi munaði mikið um að fá Jóhönnu Margréti til félagsins á dögunum. „Okkur vantaði meiri breidd í útilínuna. Jóhanna er mjög góð skytta og þess vegna styrkir hún liðið mikið þegar hún verður búin að spila sig inn í hópinn. Mér líst vel á framhaldið þegar þráðurinn verður tekinn upp í deildinni eftir Evrópumeistaramótið,“ sagði Aldís Ásta ennfremur.


Skara HF er sem stendur í áttunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fimm leiki. Einnig er liðið komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar eftir stranga keppni á vígstöðvum þeirra keppni síðan í lok ágúst.

Stigin fara að tínast inn

„Síðustu leikir voru fínir eftir smá bras í upphafi. Stigin fara að tínast inn hjá okkur. Svo eigum við mjög krefjandi andstæðing í átta liða úrslitum bikarkeppninnar, Höör 65. Það er nóg að gera og bara gaman,“ sagði Aldís Ásta Heimisdóttir landsliðskona í handknattleik og leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Skara HF.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -