- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef tekið miklum framförum

Teitur Örn Einarsson er sagður vera á leið til þýska stórliðsins Flensburg. Mynd/IFK Kristianstad - Kimme Persson Fotograf, Studio 11
- Auglýsing -

„Ég kann afar vel við mig hérna auk þess sem umgjörðin hjá félaginu er fyrsta flokks. Allt er afar faglegt og reynt að hafa hlutina þannig að manni líður vel,“ segir örvhenta skyttan Teitur Örn Einarsson sem hefur hafið sitt þriðja keppnistímabil með sænska stórliðinu IFK Kristianstad.


Teitur Örn býr ytra ásamt sambýliskonu sinni Andreu Jacobsen sem einnig leikur handknattleik hefur verið í íslenska landsliðinu líkt og Teitur. Andrea er að jafna sig eftir að hafa slitið krossband snemma á þessu ári eins og kom fram í samtali sem hún átti við handbolta.is fyrir skömmu.

Á hárréttum stað


„Mér finnst ég vera á hárréttum stað til þess að vaxa og þroskast sem handknattleiksmaður,“ segir Teitur Örn sem lék upp alla yngri flokka Selfoss og var markakóngur Olísdeildar karla síðasta tímabil sitt hér á landi áður en hann flutti til Kristianstad sumarið 2018.

„Kristianstad er mjög gott milliskref áður en maður fer til enn stærri félaga eins og stefnan er hjá mér,“ segir Teitur Örn sem er nú á fyrra ári af tveimur á samningi sínum við félagið. Reyndar er uppsagnarákvæði í samningnum af hálfu beggja aðila eftir þetta tímabil eins og yfirleitt er í svona samningum.

Rós í hnappagatið


Eftir síðasta keppnistímabil, sem varð endasleppt í Svíþjóð eins og víðast hvar annarstaðar, þá var Teitur Örn valinn besti leikmaður liðsins sem var rós í hnappagatið fyrir Selfyssinginn sem er aðeins 22 ára gamall. „Það er gaman þegar fólk tekur eftir því sem maður hefur gert,“ sagði Teitur Örn um viðurkenninguna.

Á flestar stoðsendingar


Teitur Örn hefur farið sér hægar við markaskorun það sem af er þessu keppnistímabili en tvö hin fyrri með liðinu. Í staðinn er hann sá leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir sem hefur átt flestar stoðsendingar, 27, í fimm leikjum. Teitur Örn segir ekkert hafa breyst í leik sínum eða liðsins sem skýri færri mörk en áður. Hann hafi alltaf verið drjúgur við stoðsendingarnar og var t.d. á meðal efstu manna á þeim lista á síðasta keppnistímabili.

Teitur Örn sækir að vörn andstæðinganna. Mynd/IFK Kristianstad – Kimme Persson Fotograf, Studio 11


„Ég er með öruggari menn við hliðina á mér auk þess sem við erum með geggjaðan línumann, Adam Nyfjäll. Hann grípur allt og skorar nær undantekningarlaust. Hann kom á sama tíma og ég til félagsins. Við þekkjumst mjög vel og náum afar vel saman inni á leikvellinum.“

Öruggari varnarmaður


Teitur Örn segist hafa tekið miklum framförum á síðustu árum hjá IFK Kristianstad. „Ég er orðinn mun öruggari sem varnarmaður en ég var. Heima á Íslandi spilaði ég ekki mikið í vörninni. Hérna úti hef ég verið látinn leika í vörn jafnt sem sókn sem hefur skilað árangri. Eins hefur leikskilningur og yfirvegun batnað mikið að mínu mati. Ég hef lært að spila betur með samherjunum en áður var.
Maður er að þroskast sem leikmaður auk þess að læra inn á annan leikstíl. Ljubomir Vranjes vill til dæmis leika talsvert öðru vísi handknattleik en Patrekur Jóhannesson hjá Selfossi, svo dæmi sé tekið.
Ég hef bætt mig mikið sem handboltamaður hér í Svíþjóð þótt ég skori ekki 10 til 14 mörk í leik eins og áður var. Mörkin segja ekki alltaf allan sannleikann,“ segir Teitur Örn.

Betri leikmannahópur en áður


„Við erum með betri leikmannahóp en í fyrra. Bæði hefur breiddin aukist auk þess sem margir af þeim yngri hafa tekið framförum og vaxið af reynslu. Nú erum við með mjög flottan hóp. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir tímabilinu,“ segir Teitur Örn en í mörg horn er að líta á keppnistímabilinu og því veitir ekki af að hafa öflugan leikmannhóp. Auk sænsku úrvalsdeildarinnar, þar sem IFK Kristianstad er efst og ósigrað eftir fimm leiki, þá tekur liðið þátt í Evrópudeildinni á keppnistímabilinu eftir að hafa komist klakklaust í gegnum undankeppnina í haust.

Vranjes hreinsaði til


Ekki aðeins er leikmannahópurinn öflugri en stundum áður þá er meiri festa í kringum liðið. Þjálfarinn Ljubomir Vranjes setur sífellt meira mark á liðið. „Þjálfarinn sem var hér þegar ég kom og hafði stýrt liðinu í gegnum nokkur sigursæl ár, Ola Lindgren, hætti á miðju fyrsta tímabili mínu. Eftir það vorum við nánast þjálfaralausir í tvo mánuði áður en Vranjes kom inn á síðustu vikunum. Á síðasta ári þá líkaði nokkrum leikmönnum ekki við hans þjálfunaraðferðir og leikstíl. Vranjes tók á því og sagði mönnum sem ekki vildu spila undir hans stjórn væri velkomið að róa á önnur mið, sem þeir gerðu. Þess vegna varð uppstokkun í hópnum. Núna er allt komið í fastari skorður og við horfum jákvæðum augum fram á þetta keppnistímabil.“

Lítið var við kórónuveiruna


Teitur Örn segir að enn sem komið er hafi kórónuveiran ekki sett strik í reikninginn í kringum sænska handboltann á þessu keppnistímabili. „Maður tekur varla eftir þessu hér í Kristianstad nema hvað áhorfendur eru mun færri á heimaleikjum en venjulegt er. Sem stendur mega 50 áhorfendur vera á leik en við erum vanir að hafa allt að fimm þúsund á heimaleikjum okkar. Hugsanlega verður þakið hækkað upp í 500 fljótlega. Annars gengur handboltinn nokkuð smurt fyrir utan að áhorfendur eru fáir,“ segir Teitur Örn og bendir á að einn leikmaður úr hópnum hafi veikst af covid19. Um hafi verið að ræða leikmann í yngri kantinum sem ekki sé í stóru hlutverki. Hann hafi ekki smitað samherja sína en verið frá æfingum í nærri mánuð meðan hann var að jafna sig.

Mikil samkeppni í landsliðinu


Teitur Örn kom skyndilega inn í landsliðshópinn rétt áður en farið var til Þýskalands á HM 2019. Hann var hinsvegar ekki með á EM í Svíþjóð á þessu ári. Teitur Örn segir markmiðið vera áfram að banka á dyr landsliðsins enda sé bæði heiður að leika fyrir landsliðið og svo sé það skemmtilegt. Samkeppnin um hans stöðu hafi hinsvegar aukist. „Við erum nokkrir sem getum spilað þessa stöðu. Maður verður bara að bíða og sjá hvað Gummi vill gera,“ segir Teitur Örn Einarsson, handknattleiksmaður hjá IFK Kristianstad.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -