Það eru ekki aðeins leikmenn og þjálfarar í Olísdeild karla sem hafa athugasemdir við leikjaniðurröðum Íslandsmótsins. Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, annars af toppliðum deildarinnar veltir fyrir sér af hverju beðið verður fram til 28. apríl með að hefja keppni í deildinni.
„Við höfum mátt æfa í 10 manna hópum og því er ekkert til fyrirstöðu frá mínum bæjardyrum séð að byrja að spila í næstu viku,“ sagði Elías Már Halldórsson, þjálfari HK, við handbolta.is í morgun. Hann bendir á að liðin sem fara alla leið í umspil um sæti í Olísdeild standi frammi fyrir að leika níu til ellefu leiki á rúmum mánuði. Til þess að létta álaginu hefði verið upplagt að byrja fyrr en gert er ráð fyrir.
Af samtölum handbolta.is við þjálfara og leikmenn virðist sem samráð við þá hafi í einhverjum tilfellum verið ábótavant. Væntanlega skrifast það á reikning þeirra sem halda um stjórntaumana hjá félögunum fremur en þá sem stýra málum hjá Handknattleikssambandinu.
Var aldrei spurður
„Það virðist sem að þjálfarar hafi ekki verið hafðir með í ráðum þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Ég var til dæmis aldrei spurður álits af neinum um hvað væri rétt að gera í stöðunni.
Maður veltir líka fyrir sér hvort að félögin sem ekki vildu byrja strax að spila hafi einfaldlega ekki verið að æfa í þessar þrjár vikur sem bannið stóð yfir þótt hafi mátt æfa í 10 manna hópum að uppfylltum skilyrðum um sóttvarnir,“ segir Elías Már ennfremur.
Umspil er eftir
Fimm umferðir standa út af borðinu í Grill 66-deild karla. Miðað við leikjadagskrána sem liggur fyrir á vef Handknattleikssambands Íslands fer lokaumferðin fram 14. maí. Eftir það tekur við umspil um sæti í Olísdeildinni þar sem fjögur lið reyna með sér. Umspilinu á að verða lokið 4. júní í síðasta lagi.
„Þetta þýðir að liðin sem fara í úrslit leika frá níu til 11 leiki á rúmum mánuði,“ segir Elías Már sem þykir bratt farið og að draga hefði mátt aðeins úr leikjaálaginu með því að hefja keppni fyrr en gert er ráð fyrir.
Næsta tímabil
Fleira kemur einnig til að sögn Elíasar Más. „Lítið er hugsað út í að liðin sem fara upp þurfa að fá að vita það sem fyrst til að hefja undirbúning fyrir næsta vetur, varðandi styrkingar og fleira. Það er orðið mjög seint að fara að huga að leikmannamálum í lok maí eða í byrjun júní,“ segir Elías Már Halldórsson, þjálfari HK í Grill í 66-deild karla.