- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefði verið sætt að vinna

Hannes Grimm, Ólafur Brim Stefánsson og Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, th. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Ég er ánægður með að strákarnir áttuðu sig á því að um leið og þeir brutu sig út úr munstrinu þá köstuðu þeir leiknum frá sér um tíma. Þeir voru þar af leiðandi tilbúnir að halda sig við það sem fyrir þá var lagt í hálfleik og tókst þar af leiðandi að vinna sig til baka í síðari hálfleik. Við vorum bara nálægt því að vinna leikinn þegar upp var staðið,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu, eftir jafntefli við FH, 30:30, í Olísdeild karla í handknattleik í gærkvöldi.


Eftir óskynsemi í sóknarleiknum og agaleysi á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks þá var Gróttuliðið undir, 15:10, í hálfleik og var enn fimm mörkum á eftir FH, 26:21, þegar 12 mínútur voru til loka leiksins.


„Við lékum með sjö menn í sókn í síðari hálfleik og það skilaði árangri. Eftir tíu mínútur í síðari hálfleik höfðum við skorað jafn mörg mörk á fyrstu tíu mínútunum og við skoruðum allan fyrri hálfleikinn. Alls gerðu við 20 mörk í síðari hálfleik en fengum reyndar á okkur 15 mörk í staðinn,“ sagði Arnar og var ánægður með leikmenn Gróttu létu ekki hug falla þótt ítrekað hafi þeim ekki tekist að jafna metin eftir að hafa minnkað forskot FH niður í eitt mark í síðari hálfleik.


„Ég held að ég sé ekki leiðinlegur við mína menn þegar ég segi að í þeirra stöðu hefðu þeir getað brotnað. Það gerðu þeir ekki, heldur þvert á móti sýndu þeir góðan karakter og héldu áfram.


Það hefði verið frábært að vinna leikinn og mér þykir það ekki ósanngjarnt miðað við það sem menn lögðu í síðari hálfleikinn. Mér fannst við frábærir í síðari hálfleik. En að þessu er ekki spurt. Það er frábært að vera yfir á móti FH þegar 20 sekúndur eru eftir. Þetta var hinsvegar ekki fyrsti naglbíturinn hjá okkur í vetur og því miður þykir mér þeir ekki falla með okkur. Ég er stoltur af strákunum,“ sagði Arnar Daði Arnarsson, þjálfari Gróttu í samtali við handbolta.is í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -