„Á hverjum degi hef ég óttast að meiðast á nýjan leik. Sú hugsun fer aldrei úr huganum. Ég hef aldrei látið þessar hugsanir ná tökum á mér. Það eina sem ég get gert er að njóta hverrar æfingar og hvers leiks,“ segir norska handknattleikskonan Nora Mörk sem varð markadrotting Evrópumótsins sem lauk um síðustu helgi. Mörk hefur gengist undir fjórar aðgerðir á hnjám á undangengnum þremur árum og alls tíu á síðasta áratug.
Mörk tók upp þráðinn á handboltavellinum í september eftir að hafa misst af nær öllu síðasta keppnistímabili vegna meðsla. Hún var t.d. ekki með á HM í Japan fyrir ári þegar norska liðið hafnaði í fjórða sæti. Í ársbyrjun var samningi hennar hjá stórliði CSM Bucaresti sagt upp eftir að samkomulag náðist milli hennar og félagsins.
„Síðustu mánuðir hafa verið góðir. Nú er svo komið að ég hef ekki lengur verki í hnjánum við æfingar og keppni. Vonandi hef ég náð fullum bata og mér gengur vel inni á leikvellinum,“ segir Mörk sem hefur nýtt tímann í kórónuveirufaraldrinum til að byggja sig upp.
Í faraldrinum sem gengið hefur yfir þetta ár þá hef ég haft meiri tíma til þess að hugsa um líkamann og æfa á annan hátt þar sem leikjaálag hefur verið minna. Það hefur gert mér gott,“ segir Mörk sem hefur notið aðstoðar margra þjálfara og sérfræðinga við uppbygginguna m.a. sálfræðinga.
„Ég er mörgum þakklát meðal annars þeim sem eru með mér í landsliðinu þar sem tekið hefur verið tillit til mín,“ segir Nora Mörk sem komin er í fremstu röð aftur eftir að hafa farið yfir þyrnum stráða slóð á undanförnum árum.