- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefur aldrei lent í öðru eins

Gunnar Magnússon þjálari Aftureldingar segir keppnistímabilið hafa verið afar krefjandi. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

„Ég hef lengi verið þjálfari í meistaraflokki en hef aldrei lent í öðru eins og í vetur. Ég efast um að ég hafi áður upplifað á einu keppnistímabili helming af þeim áföllum sem ég og Aftureldingarliði glímdum við á þessu keppnistímabili,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar í samtali við handbolta.is.

Gunnar er orðinn vígamóður eftir erfitt keppnistímabil og virtist létt að því væri lokið hjá hans liði þótt vonir og draumar hafi verið aðrir en að hafna í áttunda sæti í Olísdeildinni og steinliggja fyrir deildarmeisturum Hauka í tveimur leikjum í átta liða úrslitum.

„Fyrir tímabilið var ég sannfærður um að ég væri með lið sem gæti keppt við þau bestu í deildinni. Markmiðið var að vera með í baráttunni en því miður þá breyttist myndin fljótt. Daginn fyrir fyrsta leik þá sleit Birkir [Benediktsson] hásin á æfingu og eftir það rak hvert áfallið annað. Ofan á öll sóttvarahléin sem hafa komið jafnt niður á öllum liðum þá efa ég að önnur lið hafi misst jafn marga leikmenn í sóttkví og við. Þegar loksins kom að úrslitakeppninni þá voru sjö leikmenn á sjúkralista og fylgdust með leikjunum úr áhorfendastúkunni,“ sagði Gunnar við handbolta.is í gærkvöld eftir tap fyrir Haukum í síðari viðureign liðanna í átta lið úrslitum Olísdeildar.

Sagan endalausa

„Segja má að meiðsla og hrakfarasaga okkur hafi orðið að sögunni endalausu. Ég hef hef að minnsta kosti ekki unnið við eins krefjandi aðstæður og ég hef gert í vetur,“ sagði Gunnar og undirstrikaði að markmiðið hafi verið sett hærra en raun varð á.

„Fyrir tímabilið ætluðum við okkur hærra en þegar á leið þá settum við okkur það markmið að komast í úrslitakeppnina. Eins og spilaðist úr tímabilinu var það ótrúlega vel gert að ná áttunda sætinu.“

Vongóður

Gunnar sagðist horfa vongóður fram á næsta tímabil. Árni Bragi Eyjólfsson, markakóngur Olísdeildar, bætist í hópinn hjá Aftureldingu í sumar. Birkir fer af stað aftur á næsta keppnistímabili eftir að að hafa slitið hásin tvisvar í vetur.

„Sveinn Andri Sveinsson mætir til leiks eftir krossbandsviðgerð. Þorsteinn Leó verður reynslunni ríkari, eins verður Guðmundur Árni klár í slaginn með okkur eftir meiðsli og fleiri leikmenn verða búnir að jafna sig af meiðslum,“ sagði Gunnar sem verður að sjá á bak Þorsteini Gauta Hjálmarssyni. Hann hefur ákveðið að ganga á ný til liðs við Fram. Gunnar sagðist ekki reikna með öðru en skarð Þorsteins verði fyllt upp.

Feginn að þessu er lokið

„Eins og fúlt og það er að falla úr keppni í átta liða úrslitum þá er maður hálf feginn að þetta tímabil er á enda. Ég hlakka til að byrja aftur í ágúst með ferskan mannskap,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari karlaliðs Aftureldingar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -