- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hefur flogið í gegnum hugann að þetta væri ekki hægt

Leikmenn Volda kátir eftir sigur á Levanger á miðvikudagskvöld sem innsiglaði sæti í úrvalsdeild á næstu leiktíð. Hilmar Guðlaugsson aðstoðarþjálfari er lengst t.v. í efri röð og Halldór Stefán Haraldsson lengst t.h. i efri röð. Katrín Tinna Jensdóttir er sú fimmta f.v. í efri röð (3). Mynd/Facbooksíða Volda Handball

„Það var glatt á hjalla eftir leikinn en ég býst við og vona að meira fjör verði á sunnudaginn eftir síðasta leikinn. Við reiknum með að ná að fylla keppnishöllina af áhorfendum og mynda gríðargóða stemningu,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari Volda í Noregi, í samtali við handbolta.is.


Eins og kom fram á handbolta.is í fyrrakvöld tryggði Volda sér sæti í norsku úrvalsdeildinni í kvennaflokki á miðvikudagskvöld í fyrsta sinn í sögu sinni. Reyndar er liðið það fyrsta frá suðurhluta Mæris sem nær svo langt í handknattleikskeppninni í Noregi.


Halldór Stefán hefur þjálfað Volda-liðið í sex ár. Undangengin tvö ár hefur Hilmar Guðlaugsson verið Halldóri Stefáni til halds og trausts við þjálfun. Unglingalandsliðskonan Katrín Tinna Jensdóttir gekk til liðs við Volda á síðasta sumri.

Sett fram í mikilli bjartsýni

„Markmiði um að komast upp í úrvalsdeildina var sett í mikilli bjartsýni. Ég viðurkenni að á undanförnum árum hefur það flogið í gegnum huga minn að hugsanlega væri ekki hægt að ná því, að minnsta kosti að það væri mjög erfitt og allt þurfi að smella saman til þess að það náist,“ sagði Halldór Stefán þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í gær.

Púslið gekk fullkomlega upp

„Segja má að púslið hafi gengið fullkomlega upp hjá okkur á tímabilinu. Þeir leikmenn sem við treystum á pössuðu inn í stóru myndina. Til viðbótar hefur verið lítið um meiðsli. Allt hefur gengið upp hjá okkur.“

Ekki úthverfi fjölmenns bæjar eða borgar

Halldór Stefán segir árangur Volda vera enn athyglisverðari fyrir þá staðreynd að í næsta nágrenni er ekki að finna fjölmenna bæi eða borgir þar sem ríkir mikil handknattleiksáhugi. Smærri lið sem hafa gert sig gildandi í Noregi á síðustu árum hafa verið úthverfalið borga. Má þar m.a. nefna Þrándheim, Stavangur eða Björgvin. „Við erum ekki fjarrri Álasundi en þar er lítið um handknattleik. Sú staðreynd að langt er í næsta alvöru handboltalið gerir árangur okkar enn áhugaverðari en ella.“

Katrín Tinna Jensdóttir gekk til liðs við Volda á síðasta sumri. Hún skrifaði undir tveggja ára samning og tekur þar af leiðandi þátt í ævintýri liðsins í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili, að sögn Halldórs Stefáns. Katrín Tinna hafði leikið með Stjörnunni þegar hún söðlaði um og fór til Volda. Einnig var Katrín Tinna í U19 ára landsliðinu sem tók þátt í B-hluta Evrópumótsins á síðasta sumri. 
„Katrín Tinna hefur staðið sig frábærlega með okkur í vetur. Hún hefur verið lykilmaður í varnarleiknum og styrkst mikið líkamlega. Katrín Tinna verður mikilvægur hluti í okkar liði á næsta keppnistímabili.“

Heimamenn að uppistöðu til

Leikmenn Voldaliðsins eru að uppistöðu til frá Volda og bæjum í nágrenninu sem flestir hafa innan við 10 þúsund íbúa. „Til viðbótar er Katrín Tinna Jensdóttir með okkur, hollenskur markvörður og útileikmaður frá Úkraínu,“ segir Halldór Stefán um leikmannhópinn sem mótaður hefur verið á síðustu árum.

Volda er sveitarfélag í Møre og Romsdal fylki í Noregi. Það er hluti af Sunnmørshéraði. Stjórnsýslumiðstöðin er þorpið Volda. Önnur þorp í sveitarfélaginu eru Dravlaus, Fyrde, Straumshamn, Leira, Bjørke og Grodås. Sveitarfélagið er staðsett um 50 km suður af bænum Álasundi.
Helsta landfræðileg einkenni Volda er Voldsfjorden sem kvíslast í Austefjorden, Kilsfjorden og Dalsfjorden. Það er líka fjöllótt, sérstaklega suðaustur af fjörðum, með Sunnmørsalpene fjöllin umhverfis svæðið. Hið 1.482 metra háa fjall Eidskyrkja er staðsett í suðausturhluta sveitarfélagsins.

Glæsilegur heimavöllur

Volda hefur tveggja stiga forskot á Gjerpen HK Skien fyrir síðustu umferðina og hefur auk þess betri stöðu innbyrðis gegn Gjerpenliðinu. Síðasti leikur Volda fer fram heimavelli á sunnudaginn gegn Charlottenlund SK, úthverfaliði frá Þrándheimi. Að vanda leikur Volda heimaleiki sína í hinni glæsilegu keppnishöll, Volda Campus Sparebank1 Arena. Hún var tekin í notkun í desember 2020 og rúmar 2.400 áhorfendur í sæti. Halldór Stefán gerir sér vonir um að uppselt verði á leikinn og að glatt verði á hjalla enda uppskerutími.

„Við viljum fagna áfanganum almennilega í magnaðri stemningu. Það er okkar draumur. Maður verður aðeins að leyfa sér að njóta augnabliksins.“

Halldór Stefán Haraldsson, hefur unnið mjög gott starf hjá Volda í Noregi. Mynd/Volda

Vinnan strax hafin

Undirbúningur er hafinn fyrir næsta keppnistímabil. Ljóst að styrkja verður liðið fyrir átökin í úrvalsdeildinni. Þegar handbolti.is sló á þráðinn til Halldórs Stefáns hafði hann nýlokið við að ræða við leikmann sem verið er að semja við fyrir næsta keppnistímabil.


„Vinna vegna næsta tímabil er hafin og stendur yfir næstu vikur. Það verður ekki auðvelt að styrkja liðið en við munum gera hvað við getum til þess. Við ætlum að gera allt sem mögulegt er til að styrkja liðið svo það geti keppt af alvöru í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.“

Stórt verkefni framundan

„Skrefið upp í úrvalsdeild verður gríðarlega stórt. Við tökum þátt í hrikalega erfiðu verkefni. Félagið verður að draga eins mikinn lærdóm af þeirri reynslu sem fæst og hægt verður. Um leið verðum við einnig að þora að fara inn í tímabilið og njóta þess. Það er alls ekkert sjálfsagt að ná eins langt og við höfum gert. Við megum ekki búa við svo mikla pressu að botn verði dottinn úr öllum saman í desember ef ekki gengur sem skildi inni á vellinum. Engu að síður verðum við að styrkja okkur nægilega mikið til þess að eiga einhvern möguleika á að halda okkur uppi.“

Langur tími – liðið fljótt

Halldór Stefán er að ljúka sínu sjötta tímabili sem þjálfari Volda og skrifaði nýverið undir nýjan samning til eins árs. „Árin í Volda hafa liðið ótrúlega hratt. Ég tek eitt ár í viðbót. Sjö ár á sama stað er langur tími fyrir ungan þjálfara. Mig grunar að næsta tímabil verði það síðasta hjá Volda,“ sagði Halldór Stefán Harladsson sem var þjálfari í fimm ár hjá Fylki áður en hann söðlaði um og flutti til Noregs.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -