- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Hefur verið furðulegt tímabil“

Aron Rafn Eðvarðsson markvörður flytur heim í sumar eftir þrjú ár í Þýskalandi. Mynd/SG BBM Bietigheim
- Auglýsing -

„Þetta hefur verið furðulegt tímabil. Við höfum æft síðan í byrjun ágúst en aðeins leikið þrjá leiki og nú er nóvember að verða búinn,“ sagði markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans. Aron Rafn leikur með þýska 2. deildarliðinu Bietigheim sem hefur orðið harkalega úti í kórónuveiru faraldrinum sem gengið hefur yfir Þýskalandi.

Smit hafa valdið því að leikmenn liðsins hafa orðið að fara af og til í 14 daga sóttkví í haust og í vetur auk þess sem þjálfarinn, Hannes Jón Jónsson, smitaðist og var frá um tíma. Einnig hafa lið andstæðinganna veikst og leikir fallið niður með skömmum fyrirvara.


„Við ljúkum þeirri sóttkví sem við erum í núna á mánudaginn og megum þá byrja að æfa aftur. Svo eigum við leik á þriðjudaginn við Grosswallstadt. Vonandi erum við bara búnir að taka þetta allt saman út núna og getum farið að æfa og spila eins og okkur lystir. Ef allt gengur eftir þá leikum við annan og þriðja hvern dag í desember til ársloka,“ sagði Aron Rafn sem var hress í bragði þrátt fyrir allt þegar handbolti.is talaði við hann.

Hefur sem betur fer sloppið

„Það er bara ekkert annað í boði en að vera léttur í lund þótt ástandið sé eins og það er, hundleiðinlegt. Maður getur bara ekkert gert í þessu öllu saman annað en hlýða því sem manni er sagt að gera,“ sagð Aron Rafn sem er einn þeirra í hópi Bietigheim sem hefur ekki smitast til þessa. „Sem betur fer hef ég sloppið, ennþá,“ sagði Aron Rafn sem lengst hefur dvalið í sóttkví í hálfa þriðju viku í einu.

Ströng sóttkví

Sóttkví á því svæði sem Aron Rafn býr á í Þýskalandi, í suðurhlutanum nærri Stuttgart, er nánast eins og einangrun því ekki má fara út fyrir hússins dyr á meðan hún stendur yfir, ekki einu sinni í gönguferð utandyra í og við heimili.

Hefur verið eitt bíó

„Þetta hefur verið eitt bíó undanfarnar vikur og mánuði en ég er eiginlega búinn að fá nóg,“ segir Aron Rafn sem auk margra vikna í sóttkví hefur farið í nær óteljandi fjölda skimana. „Stundum hefur maður farið annan hvern dag.“

Stefnan tekin á toppbaráttu

Bietigheim ætlar sér að vera í toppbaráttu á tímabilinu og til þess þarf liðið að vinna meginþorra þeirra leikja sem framundan er vegna þess að af þremur leikjum sem eru að baki hafa tveir tapast.

„Vonandi náum við að spila þétt í desember og vinna upp þann tíma sem hefur farið í súginn. Ef við náum að leika annan eða þriðja hvern dag þá komumst við að minnsta kosti í góðan takt við leikinn áður en yfirlíkur. Vonandi þola menn þetta. Svo verðum við að sjá hvað gerist í janúar,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður hjá Bietigheim í Þýskalandi.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -