- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Heimsmeistararnir sýndu tennurnar rétt fyrir EM

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfari Dana fylgist með leiknum við Hollendinga í dag. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistarar Danmerkur léku sér að hollenska landsliðinu eins og köttur að mús í síðasta leik liðanna á fjögurra þjóða móti í Óðinsvéum. Lokatölur, 32:18. Nánast var eitt lið á vellinum í fyrri hálfleik. Staðan að honum loknum var 19:5. Danska liðið skoraði 19 mörk í 24 sóknum og markvörðurinn Emil Nielsen var með 74 % hlutfallsmarkvörslu þegar leiktíminn var hálfnaður.


Danir slökuðu aðeins á klónni í síðari hálfleik. Allir leikmenn í leikmannahópnum fengu að spreyta sig og koma sér í gang fyrir Evrópumótið. Fyrsti leikur danska landsliðsins á EM verður á fimmtudaginn gegn Tékkum í Ólympíuhöllinni í München. Auk Dana og Tékka eiga landslið Portúgal og Grikklands sæti í F-riðli Evrópumótsins.

Staffan Olsson þjálfari hollenska landsliðsins vissi ekki sitt rjúkandi ráð í fyrri hálfleik gegn Dönum í dag. Mynd/EPA

Nikolaj Jacobsen landsliðsþjálfara Dana var í sjöunda himni eftir sigurinn í dag. Í samtali við TV2 sagði hann leik liðsins hafa verið nánast villulausan í fyrri hálfleik. Eins og gæfi að skilja væri það afar mikilvægt nokkrum dögum áður en keppni á stórmóti hefst. „Í síðari hálfleik fórum við í að reyna eitt og annað sem ekki hefur verið mikið æft auk þess sem ég hleypti fleiri leikmönnum að svo þeir léku lengur en ef um jafnan leik hefði verið að ræða,“ sagði Jacobsen m.a.

Danska landsliðið vann fjögurra liða mótið í Kaupmannahöfn. Egyptar höfnuðu í öðru sæti með fjögur stig eftir öruggan sigur á Noregi í dag. 28:23. Hollendingar töpuðu öllum þremur viðureignum sínum. Norðmenn unnu Hollendinga og gerðu jafntefli við Dani.

Danir léku í kóngabláum búningum

Athygli vakti að danska landsliðið lék í kóngabláum búningum í dag. Var það í fyrsta skipti í 20 ár sem danska karlalandsliðið leikur í bláum treyjum, ekki hvítum eða rauðum eins og venjulega. Ástæða þess mun ekki tengjast krýningu Friðriks níunda Danakonungs um næstu helgi. Kvennalandslið Dana lék einu sinni í kóngabláum búningum á HM í síðasta mánuði. Eftir því sem næst verður komist tengist notkun bláa búningsins mótmælum danska handknattleikssambandsins við reglum EHF sem skyldar hvert landslið að hafa til reiðu búninga í þremur mismunandi litum á stórmótum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -