Danska landsliðskonan Kathrine Heindahl skaddaði liðband í innanverðu hné í undanúrslitaleik Dana og Norðmanna á heimsmeistaramótinu í gær. Þetta segir í tilkynningu danska handknattleikssambandsins. Heindahl leikur þar af leiðandi ekki með danska landsliðinu á morgun gegn sænska landsliðinu í viðureign um bronsverðlaun heimsmeistaramótsins.
Reiknað er með að Heindahl verður frá keppni í þrjá til fjóra mánuði eftir að hún hefur gengist undir aðgerð. Hún verður þar af leiðandi sennilega ekki með danska landsliðinu í forkeppni Ólympíuleikanna í apríl, ef að líkum lætur.
Heindahl meiddist á áttundu mínútu síðari hálfleiks undanúrslitaleiksins í gær. Fram til þess tíma hafði hún verið besti sóknarmaður Dana sem höfðu frumkvæðið í viðureigninni lengst af. Meiðsli hennar tóku talsvert bit úr sóknarleik danska landsliðsins.

Heindahl hefur verið leikmaður danska meistaraliðsins Esbjerg síðan hún kvaddi CSKA Moskvu snemma árs 2022 í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Meiðslin koma illa við frekar fámennan leikmannahóp meistaranna.
Meðal samherja Heindahl hjá Esbjeg er norska handknattleikskonan Henny Reistad sem fór á kostum í undanúrslitaleiknum í gær og skoraði fimmtán mörk.