- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hildur stal boltanum – Fram fór með bæði stigin suður

Hafdís Renötudóttir, markvörður Fram, fór á kostum gegn KA/Þór í kvöld. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Fram vann nauman sigur á Íslands- og bikarmeisturum KA/Þórs, 21:20, í æsispennandi leik í 11. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu í kvöld. Hildur Þorgeirsdóttir sá til þess að Fram tók bæði stigin með sér suður. Hún stal boltanum af KA/Þórsliðinu þegar 10 sekúndur voru eftir af leiktímanum þegar heimaliðið var í sókn og freistaði þess að jafna metin eftir að hafa lagt á ráðin í leikhléi.

Boltinn var einnig dæmdur af KA/Þór þegar mínúta var til leiksloka í stöðunni 20:20. Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði sigurmark leiksins þegar 20 sekúndur voru eftir af leiktímanum.


Fram hefur þar með fjögurra stiga forskot sem stendur. Liðið er með 19 stig að loknum 11 leikjum og átta stig á undan KA/Þór sem er í þriðja sæti. Síðarnefnda liðið á leik til góða.


Leikmenn Fram skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins og voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleik, mest fjögur mörk. Hafdís Renötudóttir fór á kostum í markinu og Ragnheiður Júlíusdóttir skorað sjö af 11 mörkum liðsins í hálfleiknum. KA/Þórsliðið átti góðan endasprett í fyrri hálfleik og minnkaði muninn í eitt mark, 11:10, áður en fyrri 30 mínúturnar voru á enda.


Hafdís hélt áfram stórleik sínum í síðari hálfleik og varð þess valdandi að KA/Þórsliðið var að elta allt þar til þrjár mínútur voru eftir. Þá kom Rakel Sara Elvarsdóttir KA/Þór yfir í fyrsta og eina sinn í leiknum, 20:19.


Framliðið var einbeittara á lokakaflanum og vann leikinn.

Karen Knútsdóttir lék ekki með Fram að þessu sinni. Emma Olsson fékk rautt spjald við þriðju brottvísun þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.


Hafdís markvörður Fram var stóri munurinn á liðunum að þessu sinni. Hún var frábær og varði jafnt og þetta allan leikinn, ekki síst úr opnum færum.


Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7/5, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 7, 35% – Sunna Guðrún Pétursdóttir 6, 42,9%.

Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 9/2, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Hildur Þorgeirsdóttir 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 2, Stella Sigurðardóttir 1, Svala Júlía Gunnarsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 18, 50% – Írena Björk Ómarsdóttir 0.


Stöðuna í Olísdeild kvenna og næstu leiki má sjá hér.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -