- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hlakka til að takast á við nýjar áskoranir

Halldór Jóhann Sigfússon segir það ekki hafa verið auðvelt að kveðja Selfossliðið. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Forráðamenn Holstebro voru mjög ákafir að fá mig til liðs við sig sem gerði það enn meira freistandi að taka þetta stökk,“ sagði handknattleiksþjálfari Halldór Jóhann Sigfússon nýráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Tvis Holstebro þegar handbolta.is sló á þráðinn til hans í morgun þar sem Halldór er í fríi á Spáni.


Holstebro sagði frá ráðningu Halldórs til félagsins eldsnemma í morgun en kvittur hefur verið uppi síðustu daga um væntanleg vistaskipti Halldórs Jóhanns. Hann mun starfa við hlið Søren Reinholdt Hansen þjálfara Holstebro sem er nýverið mættur til starfa eftir veikindi.

Ekki hefðbundið starf

„Hér er ekki á ferðinni hefðbundið aðstoðarþjálfarastarf heldur er mér ætlað stærra hlutverk sem gerir starfið ennþá áhugaverðara. Søren er nýlega kominn til baka eftir hálfs árs frí vegna kulnunar og þarf að fara varlega. Á síðasta tímabili voru þrír þjálfarar hjá félaginu og segja má að allt hafi farið í steik. Liðið varð í þriðja sæti í deildinni 2021 en slapp síðan rétt við fall eftir umspil í vor. Klúbbur sem hefur verið mjög stabíll undanfarin ár og nánast verið árlega í Evrópukeppni síðustu árin,“ sagði Halldór Jóhann.

Íslendingar í danska handboltanum leiktíðina ''22/23.
A-deild karla:
Aalborg: Arnór Atlason þjálfari, Aron Pálmarsson.
Ribe-Esbjerg: Ágúst Elí Björgvinsson, Arnar Birkir Hálfdánsson, Elvar Ásgeirsson.
Fredericia: Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari, Einar Þorsteinn Ólafsson.
Lemvig: Daníel Freyr Andrésson.
Skjern: Sveinn Jóhannsson.
Tvis Holstebro: Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari.
A-deild kvenna:
Ringkøbing Håndbold: Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Lovísa Thompson.
Skanderborg Håndbold: Steinunn Hansdóttir.
B-deild kvenna:
EH Aalborg: Andrea Jacobsen.

Stuttur aðdragandi

Gengið var frá samkomulagi á milli Halldórs Jóhanns og Holstebro í byrjun vikunnar eftir um hálfsmánaðar aðdraganda. Hann viðurkennir að það hafi alls ekki verið auðvelt að yfirgefa Selfossliðið með stuttum fyrirvara á miðju sumri þegar skammt er þangað til undirbúningur fyrir næsta keppnistímabil hefst. Halldór Jóhann lýkur lofsorði á stjórnendur Selfoss fyrir að koma til móts við sig og er þeim þakklátur fyrir liðlegheitin.

Mjög þakklátur Selfoss

„Ég er mjög þakklátur Selfoss fyrir gefa mér tækifæri á að fara með svo skömmum fyrirvara. Einnig er ég ánægður með að forráðamönnum Selfoss tókst að klára sín mál í vikunni og ráða þjálfara. Ég er mjög sáttur við hver tekur við. Ég vann með Þóri Ólafssyni hjá Selfoss og veit að hann á eftir að gera það gott. Þetta var erfiður tímapunktur að ganga frá borði. Hjá Selfossi hef ég eignast góða vini og var hræddur um að ég væri að skilja þá eftir í slæmum málum,“ sagði Halldór en samhliða ráðningu hans til Holstebro í morgun var greint frá að Þórir Ólafsson fyrrverandi landsliðsmaður taki við starfi Halldórs með karlalið Selfoss. Halldór Jóhann átti ár eftir af samningi sínum við handknattleiksdeild Selfoss.

Holstebro er bær á miðvesturhluta Jótlands, skammt vestan við Viborg og norðvestur af Herning. Tvis Holstebro varð til árið 2000 með sameiningu Holstebro Håndbold 90 og Tvis KFUM. Auk sigurs í bikarkeppninni 2008 og 2017 vann liðið til silfurverðlauna í úrvalsdeild karla 2016 og hreppti bronsverðlaun 2009, 2012, 2014 og 2020. Einnig varð Tvis Holstebro í þriðja sæti í EHF-bikarnum 2013. Fram til ársins 2019 rak félagið einnig kvennalið sem lék í úrvalsdeild en frá og með árinu 2020 var stofnað til annars félags um rekstur þess.

Frábært tækifæri og viðurkenning

„Ég lít á þetta sem frábært tækifæri sem Holstebro er að veita mér. Um leið og það er viðurkenning að leitað sé til mín og að forráðamenn félagsins telji að ég geti hjálpað liðinu að komast inn á beinu brautina á nýjan leik.


Holstebro er flottur klúbbur með flotta sögu og frábæran heimavöll. Klúbbur sem allir tala vel um. Danska úrvalsdeildin er alltaf að styrkjast og ég hlakka til að takast á við þær áskoranir sem starfinu fylgir,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon sem mætir til starfa hjá Holstebro 22. júlí.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -