- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Áttunda sætið eftir vítakeppni og frábært mót

Íslenska landsliðið U18 ára kvenna á HM í sumar. Margar úr þessu liði eru í æfingahópi U19 ára. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið hafnaði í áttunda sæti á heimsmeistaramóti U18 ára liða í handknattleik kvenna í Skopje í Norður Makedóníu. Eftir vítakeppni mátti íslenska landsliðið bíta í það súra epli að tapa fyrir Egyptum, 35:33.


Jafnt var eftir venjulegan leiktíma, 31:31. Embla Steindórsóttir kom Íslandi yfir þegar rúmar 10 sekúndur voru eftir af leiknum en Egyptum tókst að jafna og knýja fram vítakeppni og hafa betur í henni. Í vítakeppni er ekki á vísan róið.


Íslenska liðið var yfir, 16:12, eftir fyrri hálfleik og var með yfirhöndina framan af síðari hálfleik. Egyptar sóttu í sig veðrið eftir því sem á leið hálfleikinn. Ekki síst reyndist Cihad Wael Sayed markvörður erfið. Auk þess var sóknarleikurinn markviss.

Ekki má heldur gleyma því að í dag vantaði tvo leikmenn í íslenska hópinn. Elísa Elíasdóttir meiddist um mitt mót og var ekki með. Til viðbótar bættist fyrir leikinn í dag að Tinna Sigurrós Traustadóttir gat ekki verið með eftir að hafa orðið fyrir höggi í viðureigninni við Frakka á mánudaginn.

Byrjuðu neðst – enda efst


Íslenska landsliðið endar þar með í áttunda sæti eftir frábæra frammistöðu á mótinu. Liðinu var boðin þátttaka í vor og kom inn í mótið sem eitt af átta í fjórða og neðsta styrkleikaflokki enda þátttakendur í B-hluta Evrópumótsins fyrir ári. Niðurstaðan er sú að íslenska liðið kveður keppnina sem eitt af þeim átta sem eru efsta flokki. Sú staðreynd segir meira en mörg orð um hversu miklar framfarir hafa orðið innan þessa hóps sem á svo sannarlega framtíðina fyrir sér. Alltént hefur hópurinn skrifað nýjan kafla í íslenskum handknattleik. Vonandi bera menn gæfu til að hlúa að hópnum og styðja hann til frekari afreka í framtíðinni.


Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 12, Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Embla Steindórsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Katrín Anna Ásmundsdóttir 2, Thelma Melsteð Björgvinsdóttir 2.

Varin skot: Ethel Gyða Bjarnesen 4, Ingunn María Brynjarsdóttir 3.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -