- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Eins marks tap í háspennuleik – vart mátti á milli sjá

Elín Klara Þorkelsdóttir úr Haukaum er ein þeirra sem valin var í A-landsliðshópinn í dag. Mynd/IHF
- Auglýsing -

U18 ára landslið Íslands tapaði með minnsta mun, 27:26, fyrir Hollendingum í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í sannkölluðum háspennuleik í Boris Trajkovski Sports-íþróttahöllinni í Skopje í Norður Makedóníu í dag. Vart mátti á milli liðanna sjá lengst af en Hollendingar skoruðu sigurmarkið þegar átta sekúndur voru til leiksloka. Hollenska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12.


Ísland leikur þar með við Frakka á morgun kl. 16.15 í krossspili um fimmta til áttunda sæti mótsins. Frakkar töpuðu fyrir Dönum sem mæta Hollendingum í undanúrslitum. Hvaða önnur lið blandast í undanúrslitin eða í krossspilið um fimmta til áttunda sætið skýrist síðar í kvöld.

Fyrri hálfleikur var afar jafn og jafnt á öllum tölum upp í stöðuna 11:11 þegar hollenska liðið varð öflugra á síðustu mínútunum og fór með þriggja marka forskot inn í búningsklefann í hálfleik, 15:12.

Hollendingar héldu forskoti sínu fyrsta stundarfjórðunginn í síðari hálfleik. Eftir leikhlé á 44. mínútu sneri íslenska liðið við taflinu og skoraði fimm mörk gegn einu hollensku og komst yfir, 21:20. Það sem eftir lifði leiksins skiptust liðin á að vera marki yfir. Í jafnri stöðu, 26:26, átti íslenska liðið sókn þegar mínúta var eftir. Hollendingar komst inn í sendingu og sneru vörn í sókn. Þeim tókst að skora sigurmarkið, en litlu munað að það félli Íslandsmegin.

Íslensku stúlkurnar börðust eins og ljón frá upphafi til enda.


Mörk Íslands: Lilja Ágústsdóttir 10, Katrín Anna Ásmundsdóttir 6, Tinna Sigurrós Traustadóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 1.
Varin skot: Ethel Gyða Bjarnasen 15.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í beinni textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -