- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Framhaldið ræðst af metnaði og góðri þjálfun

U18 ára landsliðið stóð sig frábærlega á heimsmeistaramótinu. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Við höfum oft átt fín landslið í yngstu aldurflokkum kvenna. Meginmunurinn á þessu liði og mörgum öðrum er meðal annars hversu margir leikmenn geta farið alla leið upp í A-landslið. Vissulega er mikill munur á yngri landsliðum og A-landsliði, ýmislegt þarf að gerast til þess að góður unglingalandsliðsmaður verði góður A-landsliðsmaður en ljóst er að margar geta stígið skrefið ef rétt er á málum haldið og metnaður þeirra er fyrir hendi,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í dag. Eins og kunnugt er hafnaði íslenska landsliðið í áttunda sæti af 32 liðum á heimsmeistaramótinu sem lauk í Skopje á miðvikudaginn.

Kom á óvart

Árangurinn kom mörgum á óvart. Íslensk kvennalandslið hafa ekki oft blandað sér í hóp þeirra bestu á stórmótum auk þess sem að þessu sinni kom íslenska landsliðið inn um bakdyrnar eftir að uppstokkun varð á hópi keppnisþjóða við brotthvarf Rússa og Hvít-Rússa af sviði alþjóða handknattleiks.

Mikil reynsla safnast síðasta árið

„Þessi hópur okkar sem var á HM hefur verið saman í tvö sumur og tekið þátt í tveimur stórum mótum, auk undankeppni HM í Serbíu í nóvember og einnig leikið nokkra æfingaleiki við Dani og Færeyinga. Reynslan hefur safnast upp og er orðin meiri en oft hefur þekkst í þessum aldursflokki hjá okkur. Flestir leikmenn hafa leikið 20 til 25 landsleiki undanfarin ár sem er ótrúlega mikið þegar um er að ræða 17 og 18 ára leikmenn,“ segir Ágúst Þór sem lengi hefur sinnt þjálfun handknattleiks í kvennaflokki auk þess að fylgjast vel með í alþjóðlegum handknattleik.

Hefur verið vel sinnt

„Liðið hefur leikið margoft á stóra sviðinu og frammistaðan verið ótrúlega góð. Mjög fáir af þessum á þriðja tug leikja hafa tapast. Einnig hefur verið mikið æft og hópurinn hefur verið mikið saman sem undirstrikar að honum hefur verið mjög vel sinnt, bæði hjá okkur og hjá félagsliðunum sem bera hitann og þungann af þjálfun leikmanna,“ segir Ágúst Þór sem hefur þjálfað U18 ára landsliðið auk U17 ára landsliðsins í fyrra með Árna Stefáni Guðjónssyni þjálfara og samstarfsmanni sínum.

Hinn vaski hópur starfsmanna sem hélt utan um U18 ára landsliðið á HM í Skopje. F.v. Brynja Ingimarsdóttir liðsstjóri, Þorvaldur Skúli Pálsson sjúkraþjálfari, Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari, Jóhann Ingi Guðmundsson markvarðaþjálfari, og Árni Stefán Guðjónsson þjálfari. Mynd/Aðsend


Eftir frábæran árangur U18 ára landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Skopje sem lauk í síðustu viku vaknar spurning um hvað þarf til þess að þessi hópur skili sér upp í A-landsliðið með von um að A-landsliðið stígi skref fram á við á næstu árum.

Metnaður leikmanna skiptir mestu máli

„Fyrst og fremst þarf að halda áfram vel utan um þetta lið eins og öll önnur yngri landslið okkar. Þetta lið getur náð langt og margar af stúlkunum eiga möguleika á að skila sér upp í A-landsliðið. Til þess verðum við sem að því stöndum hjá HSÍ að halda áfram að koma þeim inn í verðug verkefni,“ sagði Ágúst Þór og undirstrikar að mestu máli skipti fyrir framhaldið hversu mikið leikmennirnir sjálfir séu tilbúnir að leggja í þjálfun og til að stíga áframhaldandi framfaraskref. Þá snýst allt um leikmennina og þjálfunina hjá félagsliðunum.

Inga Dís Jóhannsdótir og Thelma Melsteð Björgvinsdóttir í leik við Hollendinga. Mynd/IHF

Enginn má tapa þræðinum

„Þær verða fá góða þjálfun en um leið einnig bera ábyrgð á því sem þær eru að gera, meðal annars með aukaæfingum. Framhaldið snýst fyrst og fremst um það hvernig þær sjálfar sinna sínu við að byggja upp sterkari grunn. Metnaður þeirra og vilji skiptir mestu máli. Félög þessara stúlkna hafa sinnt þeim vel en það má enginn tapa niður þræðinum því þótt staðan sé góð er það sem gerist á næstu árum ekki síður mikilvægt. Vinnunni er ekki lokið, síður en svo,“ sagði Ágúst Þór.

Vöktu mikla athygli

Mikill áhugi var á meðal handknattleiksáhugafólks og þjálfara fyrir íslenska liðinu, að sögn Ágústs Þórs. „Árangurinn vakti mikla athygli ytra og við fundum fyrir ríkum áhuga meðal forsvarsmanna annarra landsliða á að bjóða okkur til þátttöku í vináttuleikjum og á mót. Margir veltu vöngum yfir skýringum á þeim miklu framförum sem liðið hefur tekið á skömmum tíma,“ sagði Ágúst Þór.

Mynd/IHF

Norðurlöndin hafa stungið af

Um árabil hefur raunin verið sú að Norðurlandaþjóðirnar hafa tekið fram úr Íslendingum á aldrinum 17 til 20 ára. Kemur það ekki síst til vegna meiri æfinga meðal kvenna á Norðurlöndunum sem margar hverjar eru í handboltaakademíum samhliða framhaldsnámi. Ágúst Þór segir það vita á gott að þessi munur er ekki fyrir hendi hvað þennan hóp varðar, nema síður sé ef horft er til heimsmeistaramótsins.

Félagsliðin leika stórt hlutverk

„Framhaldið snýst um að allir sem að málum koma rói í sömu átt, þar á ég við stúlkurnar sjálfar og metnað þeirra, félagsliðin leika stórt hlutverk einnig enda bera þau ábyrgð á þjálfun, og að við hjá HSÍ höldum áfram að verða liðinu úti um góð verkefni. Þannig getum við í sameiningu byggt ofan á þann árangur sem þegar hefur náðst,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is í dag.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -