- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU18: Krefjandi leikur og mikill hraði

Ágúst Þór Jóhannsson fer yfir málin með leikmönnum sínum. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Leikurinn leggst vel í okkur. Undirbúningur hefur verið eins góður og mögulegt er síðasta sólarhringinn. Hollenska liðið er feikilega sterkt og hefur unnið góða sigra á mótinu til þessa, meðal annars á Þjóðverjum og Rúmenum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna þegar handbolti.is náði stuttlega af honum tali rétt fyrir hádegið. Framundan hjá íslenska landsliðinu er að klífa þrítugan hamarinn.


Ágúst Þór var ásamt samstarfsfólki að leggja lokahönd á undirbúning íslenska landsliðsins fyrir stórleikinn við Hollendinga í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts kvenna 18 ára og yngri í Skopje í Norður Makedóníu. Flautað verður til leiks klukkan 16.15.

Verðum að skila okkur vel til baka

„Við erum að fara í hörkuleik gegn liði sem elskar að keyra upp hraðann í leikjum sínum hvenær sem kostur er á. Þar af leiðandi verðum við að ljúka sóknum okkar eins vel og kostur er og um leið skila okkur hratt og vel til baka í vörnina. Það er eitt af stóru atriðunum. Auk þess er innan hollenska liðsins afar öflug vinstri skytta sem við verðum að hafa góðar gætur á,“ sagði Ágúst Þór.

Elísa ekkert meira með

Allir leikmenn íslenska landsliðsins eru tilbúnir í slaginn að Elísu Elíasdóttir undanskilinni. Hún tekur ekki þátt í fleiri leikjum á mótinu að sögn Ágústar. Elísa fékk höfuðhögg í viðureigninni við Íran í milliriðlakeppninni og sat yfir í leiknum við Norður Makeóníu í fyrrakvöld.

Skiljum allt eftir

„Við ætlum að gefa allt í leikinn í dag og gera það sem mögulegt er til að koma okkur í undanúrslit. Verkefnið er erfitt og krefjandi en það mun ekki koma í veg fyrir að við munum skilja allt eftir á leikvellinum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfurum U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.


Sem fyrr segir hefst leikur Íslands og Hollands klukkan 16.15. Handbolti.is verður með textalýsingu frá leiknum eins og öðrum leikjum íslenska landsliðsins í keppninni. Einnig verður birtur hlekkur á streymi frá leiknum á forsíðu handbolta.is.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -